Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Leggja 66 milljónir til þjóðarleikvangsins

Mynd með færslu
 Mynd:

Leggja 66 milljónir til þjóðarleikvangsins

25.07.2014 - 11:40
KSÍ og Reykjavíkurborg leggja á næstu þremur árum rúmar 66 milljónir vegna aukins rekstrarkostnaðar af Laugardalsvelli á árunum 2007 til 2013. Borgin leggur til helminginn en KSÍ hinn helminginn. Þetta kemur fram í nýjum samningsdrögum um rekstur þjóðarleikvangsins sem samþykkt voru í gær.

Í ársreikningi KSÍ, sem kynntur var í febrúar á þessu ári, kom fram að rekstur Laugardalsvallar væri þungur. Eigið fé hans væri neikvætt um 66 milljónir og rekstur mannvirkja fór 15 milljónir fram úr áætlunum, var 33 milljónir.

Viðræður Reykjavíkurborgar og KSÍ um nýjan samning vegna reksturs þjóðarleikvangsins hafa staðið frá því á síðasta ári. Fyrstu samningsdrögin voru kynnt í maí og í gær voru ný samningsdrög samþykkt á fundi borgarráðs í gær.

Þar er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg greiði KSÍ árlega 45,6 milljónir. Sú greiðsla hækkar um tæpa eina og hálfa milljón frá fyrstu samningsdrögum. Greiðslan er fyrir húsaleigu og æfingastyrkja ÍTR vegna afnota frjálsíþróttafólks af Laugardalsvelli, aðstöðu fyrir Skylmingafélag Reykjavíkur, heimaleikja Fram og umhirðu grasvallar.

Borgin og KSÍ leggja jafnframt 66 milljónir vegna aukins rekstrarkostnaðar á Laugardalsvelli á árunum 2007 til 2013. Framlagið verður greitt með þremur jöfnum greiðslum og verður sú fyrsta í júní á næsta ári.

Fréttastofa greindi frá því í gær að UEFA ætlaði að styrkja KSÍ um nýja kastara í flóðljósin á vellinum. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir því að Reykjavíkurborg legði til 50 milljónir í verkið. Styrkurinn frá knattspyrnusambandi Evrópu gerir það að verkum að borgin þarf ekki að leggja til krónu. 

[email protected]