Leðurblökumaðurinn kemur til Djúpavíkur

Mynd með færslu
 Mynd: EPA - RÚV

Leðurblökumaðurinn kemur til Djúpavíkur

07.10.2016 - 11:39

Höfundar

Bandaríski leikarinn Ben Affleck staðfesti í spjallþætti í vikunni að hann verði með í tökum á kvikmyndinni Justice League sem lagt hefur undir sig þorpið á Djúpavík á Ströndum. Affleck leikur sjálfan Leðurblökumanninn og þetta verður því í annað sinn sem ofurhetjan hefur viðkomu á Íslandi.

Affleck gaf ekki mikið upp um tökurnar hér á landi - sagðist hafa verið í Lundúnum í fjóra mánuði vegna kvikmyndarinnar og að hann þyrfti að fara til Íslands í nokkra daga til að klára verkefnið.

Vefur Boston Globe fullyrðir síðan í morgun að Affleck verði á Djúpavík um helgina. Hann geti því ekki verið viðstaddur þegar ruðningshetjan Tom Brady snýr aftur á heimavöll New England Patriots í bandarísku NFL-deildinni en leikarinn er mikill aðdáandi Brady og liðsins.  

Justice League segir frá því þegar nokkrar af helstu ofurhetjum DC Comics taka höndum saman og mynda bandalag.  Myndin á að vera svar við Avengersmyndum Marvel-fyrirtækisins og er ráðgert að hún verði frumsýnd í kringum jólin 2017.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Leðurblökumaðurinn kemur til Íslands. Þegar Christopher Nolan endurvakti ofurhetjuna í þríleik sínum með Christian Bale var hluti af fyrstu myndinni - Batman Begins - tekinn upp hér á landi.

Tökulið Justice League hefur lagt undir sig Djúpavík og bannað er að aka í gegnum þorpið með myndavélar meðan á tökum stendur. Hótelstjórinn þar, Ásbjörn Þorgilsson, skrifaði þannig á Facebook í síðustu viku að hart yrði tekið þá þeim sem staðnir yrðu að því að reyna leka út aðstöðunni sem búið væri að kosta til milljónum að útbúa. 

RÚV greindi frá því í vikunni að kostnaður við myndina hér á landi næmi rúmum hálfum milljarði króna. Sem þýðir að umfangið er á pari við aðra ofurhetjumynd - Thor II. Að henni kom 280 manna tökulið en tökurnar stóðu aðeins yfir í eina viku á Suðurlandi. 

Tengdar fréttir

Árneshreppur

Kostnaður við Justice League hálfur milljarður

Árneshreppur

Lok, lok og læs og allt í stáli á Djúpavík

Menningarefni

Hollywood á leiðinni til Djúpavíkur