Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Laxveiði dræm það sem af er sumri

15.07.2019 - 08:51
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. - Mynd: Einar Rafnsson / RUV
Það sem af er sumri hafa einungis 3.200 laxar veiðst, miðað við 45 þúsund allt árið í fyrra. Erfiðar aðstæður hafa verið til veiða, mikil birta og vatnsleysi í ám, sem og óvenjulitlar göngur laxa.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands Veiðifélaga, sagði í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun að þetta sé óvenjuskörp niðursveifla. Kalt vor hafi verið sunnanlands í fyrra, sem valdi því að seiðin fari síður út. Kaldur sjór dragi enn frekar úr fjölda þeirra seiða sem ganga upp í árnar. Hann á þó von á að veiðin glæðist eitthvað þegar meira vatn komi í árnar, eitthvað af laxi bíði í ósum ánna, en ljóst sé að þetta verði ekki mikið veiðisumar.

Jón Helgi segir ekki annað að sjá en að silungsveiði sé með góðu móti á flestum stöðum, enda ekki eins sveiflugjarnar veiðar og laxveiðin. Vatnsleysi hafi þó vissulega áhrif á þær ár sem eru með silungsveiði. 

Aðspurður um hvernig veiðimenn taki þessari dræmu veiði segir Jón Helgi fólk almennt hafa skilnig á ástandinu. Flestir veiðimenn vita að veiðin getur sveiflast milli ára, en vissulega séu alltaf vonbrigði þegar lítið veiðist.