Launafólk getur ekki eitt sýnt ábyrgð

26.08.2018 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir ekki hægt að ætlast til þess að launafólk sýni eitt skynsemi og ábyrgð í þjóðfélaginu þegar þegar forystumenn ríkisstjórna og Alþingis staðfestlega neiti því. Bendir hann á kjararáð, velferðarkerfið og skattbyrði þeirra tekjulægstu. 

Stjórnvöld og Alþingi þurfa að koma á sátt um laun æðstu ráðamanna og útfæra fyrir alvöru breytingar á velferðar-, bóta- og skattkerfinu til að þau létti undir með tekjulágum. Þetta segir Gylfi í tilefni af skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga sem hann gerði fyrir forsætisráðuneytið. 

Gylfi segir niðurstöðu Gylfa Zoega hagfræðiprófessors í skýrslunni áþekka skrifum Stefáns Ólafssonar prófessor sem birt voru á vef Eflingar fyrir stuttu. Til dæmis telji Gylfi Zoega að svigrúm til fjögurra prósenta launahækkana svipað og Stefán. Forseti ASÍ segir að verkalýðsforystan hafi verið að nálgast stjórnvöld í því að ræða stöðu kjarasamninga og hagkerfisins á málefnalegum nótum.

„Afstaða okkar til kjararáðs mótaðist mjög mikið af því að þar væri úr þeim farvegi. Og þar er það statt það er sem sagt ekki í farvegi. Það er ekkert hægt að ætlast til þess að launafólk eitt sýni skynsemi og ábyrgð í þessu samfélagi þegar forystumenn ríkisstjórna og Alþingis staðfastlega neita því.

Áttu þá við kjararáð og laun þeirra sem það hefur ákvarðað?

Já, bæði það og líka framgöngu stjórnvalda gagnvart velferðarkerfinu, skattakerfinu, skattbyrði þeirra tekjulægstu. Það að stjórnvöld fjarlægi eða taki til sín þann ávinning sem lágtekjufólk hefur haft af kjarasamningi stuðlar ekki að málefnalegri umræðu.

Stjórnvöld og Alþingi hvað væri það fyrsta sem þau ættu að gera?

Ég held að það sé alveg ljóst að það verður að koma á einhverri sátt, dýpri sátt en gerð hefur verið, í tengslum við launahækkanir æðstu ráðamanna og æðstu embættismanna. Það er kjararáð. Hitt er síðan þá að fara í alvöru útfærslu á því með hvaða hætti hægt væri að breytta bæði hvað varðar velferðarkerfið, bótakerfið og skattkerfið þannig að það létti undir með tekjulágu fólki. Þetta held ég að séu alger forgangsverkefni. En auðvitað eru fleiri atriði eins og til dæmis bara húsnæðislánakerfið. Húsnæðislánakerfi sem getur gagnast almenningi og ungu fólki. Við höfum lagt fram tillögur í því líka en ekki fengið mikla áheyrn. Og ég held að það sé æðimargt sem stjórnvöld geta gert ef að viljinn er til staðar.

Og þú bíður eftir að sjá þann vilja?

Hann hefur ekki alveg birst.“