Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Laun bæjarstjóra „skera í augun“

05.06.2018 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Almennt tíðkast hér á landi að bæjarfulltrúar og bæjarstjórar hafa sameiginlega hagsmuni af því að launakjör bæjarstjóranna séu sem best þar sem hækkanir tengjast. Þetta sagði Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar ræddi hann um sveitarstjórnarmál og laun kjörinna fulltrúa við þá Óðinn Jónsson og Björn Þór Sigbjörnsson. 

Í Noregi er lægstur meðalfjöldi íbúa í sveitarfélögum af hinum Norðurlöndunum en hlutfallslegur fjöldi fámennra sveitarfélaga ekki eins mikill og á Íslandi. Að sögn Þórólfs er meðalsveitarfélagið í Svíþjóð átta sinnum stærra en hér á landi og miðað við að íbúafjöldi í sveitarfélagi sé ekki minni en fimm þúsund. Hér á landi sé viðmiðið 50 íbúar. „Menn geta séð að sú tala er nánast brandari.“

Á hinum Norðurlöndunum hafi átt sér stað miklar skipulagsbreytingar á sveitarstjórnarstigi, verkefni flutt til þeirra, þau sameinuð og stækkuð. Í framhaldinu hafi laun verið ákvörðuð í samræmi við hinn nýja veruleika sem blasi við sveitarstjórnum í kjölfar þessara breytinga.

Hér hefur kannski verið byrjað á öfugum enda með launakjörin,

segir Þórólfur og veltir fyrir sér yfirbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og spyr hvort nauðsynlegt sé að vera með marga bæjarstjóra á hærri launum en forsætisráðherra.

„Ég hygg að það sé dálítið vel í lagt.“

Nú standa yfir meirihlutaviðræður í mörgum sveitarfélögum í kjölfar sveitarstjórnarkosninga og Þórólfur spyr hvort ekki sé upplagt fyrir þá sem þátt í þeim taka að ræða um breytingar á fyrirkomulagi þessa stjórnsýslustigs, „þetta þurfi eiginlega að ræða, alveg eins og launakjörin.“

Úrskurður kjararáðs hafði mikil áhrif á launamál og voru forsendur hans að leiðrétta „aftanúrkeyrslur“ eftir hrun eins og Þórólfur orðar það.

Í kjölfarið hafi fylgt „höfrungahlaup“, einkum á sveitarstjórnarstigi að mati Þórólfs og „undarlegar tölur sem maður sér þar“ sem erfitt sé að átta sig á rökunum fyrir.

Af hverju kemst stjórnmálastéttin upp með að yfirstéttarvæða sjálfa sig í þessu fámenna landi?

„Nú þori ég ekki að svara.“

En er þetta ekki rétt lýsing?

„Það er kannski rétt lýsing en eitt er þó, sem ég hef rekið augun í. Það er það að oft eru laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa tengd saman með einhverjum hætti. Ef við hugsum okkar sveitarfélagið sem einhvers konar fyrirtæki, bæjarstjórnina sem stjórn fyrirtækisins og með einhvern framkvæmdastjóra þá á stjórnin að hafa eftirlit með framkvæmdastjóranum. Þarna er búið að tengja saman hagsmuni framkvæmdastjóra og stjórnarinnar.“

Í Danmörku fær sveitarstjórnarfólk hærri laun eftir því sem fjöldi íbúa í sveitarfélaginu eykst sem Þórólfur segir virka sem hvata til sameiningar sveitarfélaga. Tekur hann sem dæmi að væri þetta raunin hér á landi væru laun bæjarstjóra Garðabæjar áttundi hluti af launum borgarstjóra Reykjavíkur og laun bæjarfulltrúa fjórðungi lægri en borgarfulltrúa.

Athygli vakti um daginn þegar kom í ljós að bæjarstjórar Kópavogs og Garðabæjar eru betur launaðir en borgarstjóri Tókýó í Japan, einnar fjölmennustu borgar heims. Þórólfur segir að þetta „skera í augun“ en taka verði tillit til ytri aðstæðna í íslensku samfélagi, einkum sterkrar stöðu krónunnar sem geri það að verkum að laun hér virðist há í samanburði við mörg önnur lönd. Verðlag hér á landi sé þó hærra en víðast hvar annars staðar og sé það tekið með í reikninginn eru launakjörin ekki jafn góð.

Það má segja að allt sem að heitir kjarasamningar, þar sem er verið að stefna saman þúsundum manna með Excelsíður og allt saman, það sé hálfgerður, ég vil ekki segja skrípaleikur en hefur tragíkómískt yfirbragð, skulum við segja.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV