Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Laumufarþega haldið um borð í Norrænu

07.07.2015 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Karlmanni, sem reyndi að komast frá Danmörku til Íslands með því að lauma sér um borð í Norrænu, varð ekki kápan úr því klæðinu. Honum var haldið um borð, meinuð landganga á Seyðisfirði og sendur sömu leið til baka.

Starfsmenn ferjunnar Norrænu fundu laumufarþegann í skipinu þegar það var á leið til landsins í síðustu viku. Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að laumufarþegar séu á ábyrgð útgerða. Skipstjóri Norrænu hafi þó verið í sambandi við lögreglu vegna málsins. Samkvæmt útlendingalögum mega laumufarþegar ekki ganga í land nema með leyfi lögreglunnar. Jónas segir að slíkt leyfi sé ekki veitt nema af mannúðarástæðum. Lögregla viti ekki hvað manninum gekk til, hann hafi ekki óskað eftir hæli og engin ástæða til að hleypa honum inn í landið. Hann fór því sömu leið til baka með Norrænu en í skipinu er sérstakur læstur klefi þar sem hægt er að halda fólki undir eftirliti. Á laugardag kom Norræna svo aftur með laumufarþegann til Hirtshals í Danmörku eftir tveggja daga siglingu frá Íslandi með viðkomu í Færeyjum.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV