Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Laugavegi lokað í fjóra mánuði í stað fimm

10.05.2015 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgarráð ákvað á fundi sínum á fimmtudag að sumarlokun Laugavegs skyldi standa yfir frá 15. maí til 15. september, í stað 1. maí og 1. október eins og áður hafði verið stefnt að. Því verður lokað fyrir bílaumferð mánuði skemur en að var stefnt en samt mánuði lengur en í fyrra.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að tekin yrði upp sveigjanleg lokun Laugavegsins í fjóra mánuði frekar en að loka honum alveg í fimm mánuði. Meirihlutinn hafnaði því en ákvað sem fyrr segir að stytta lokunina. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvalla lögðu hvorir fram sína bókun þar sem sagði að meiri reynsla þyrfti að fást á sumarlokanir áður en lokunin yrði lengd.

Framsókn og flugvallarvinir telja að meiri reynsla þurfi að koma á sumarlokanir í þá 3 mánuði áður en tekin verður ákvörðun um lengri lokunartíma,“ sagði í bókun Framsóknar og flugvallarvina. 

Sjálfstæðismenn töldu betra að hafa sveigjanlega lokun Laugavegar en að loka honum alveg fyrir bílaumferð í sumar. „Mikilvægt er að vinna að þróun göngugatna í miðborg Reykjavíkur í samvinnu við vegfarendur, íbúa og hagsmunaðila á svæðinu. Ekki er skynsamlegt að taka stór skref sem geta haft neikvæð áhrif á þessa þróun og dregið úr nokkuð góðri sátt sem ríkt hefur.“

 

 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV