Laugardagslög Iceland Airwaves

Mynd með færslu
 Mynd: Iceland Airwaves - RÚV

Laugardagslög Iceland Airwaves

09.11.2019 - 10:05
Tónlistar hátíðin Iceland Airwaves er búin að vera í fullum gangi síðan á miðvikudag. Rúv núll tók saman lagalista yfir þá helstu sem koma fram í dag á þessum síðasta degi Airwaves.

Girl in red - i wanna be your girlfriend
Girl in red eða Marie Ulven Ringheim sem er fædd árið 1999 kemur frá Noregi. Hún er orðin þekkt á heimsvísu og höfðar sérstaklega til yngra fólks með sínum viðkvæmu textum. Hún semur lög um hinseginleika og unglingakvíða. Hún gaf fyrst út á SoundCloud undir notandanafninu Lydia x og byrjaði að ná athygli þar. Skömmu síðar gaf út sína fyrstu þröngskífu árið 2018 sem bar titilinn I Wanna Be Your Girlfriend og tímaritið The New York Times setti lagið í níunda sæti á lista yfir 68 bestu lögin árið 2018. 

Daði Freyr - Náum aðeins andanum
Lagið Náum aðeins andanum kemur af plötunni & Co. sem Daði Freyr gaf út fyrr á þessu ári. með honum í þessu lagi er hin frábæra söngkona Ásdís María.

Velvet Negroni - WINE GREEN
Jeremy Nutzman, sem kýs að kalla sig Velvet Negroni ólst upp í Minneapolis við strangt tónlistarlegt uppeldi en frá fimm ára aldri æfði hann klassískan píanóleik í klukkutíma á dag. Hann gaf út sína fyrstu breiðskífu, T.C.O.D. árið 2017 og var að gefa út aðra plötu sína, NEON BROWN, núna í lok ágúst. Þetta er einhvers konar samsuða af fönki, poppi og R&B. Hann hitaði upp fyrir Tame Impala á árinu og syngur á nýjustu plötu Bon Iver.

Vök - Waterfall
Nýlega kom út nýjasta plata Vök sem ber heitið In The Dard. Hljómsveitin Vök hefur verið að hasla sér völl í íslensku tónlistarlífi um nokkurt skeið, en hefur nú með þessari plötu sýnt að hljómsveitin er ein af þeim fremstu sem við eigum.

Lydmor - Dim
Lydmor þessi heitir raunar Jenny Rosander og er frá Danmörku. Hún spilar arty rafpopp með danstónlistarívafi með vélrænum töktum. Lydmor hefur verið að gefa út tónlist síðan árið 2012 og árið 2018 náði hún hún almennilegri athygli með þriðju plötu sinni I Told You I’d Tell Them Our Story. 

Cautious Clay - Cold War
Cautious Clay sem heitir réttu nafni Joshua Karpeh er 26 ára bandarískur söngvari, lagahöfundur og plötusnúður. Karpeh fæddist í Cleveland, Ohio en segir heimabæ sinn Brooklyn, New York. Hann lauk prófi í jazz-fræðum frá George Washington-háskóla og vann sem fasteignasali áður en hann snéri sér alfarið að tónlistinni. Cautious Clay byrjaði eins og margir aðrir að fikra sig af stað á SoundCloud en gaf út sína fyrstu þröngskífu, Blood Type, í febrúar í fyrra. 

GKR - ENN AÐ LÆRA
Nýlega gaf GKR út nýtt lag sem ber heitið IAN BOOM og myndband við sem hann tók upp í Svíþjóð. Lagið ENN AÐ LÆRA gaf hann út fyrr á þessu ári.

Nina Las vegas - Ezy
Nina Las Vegas er ein af áhrifamesta tónlistarfólki í áströlsku tónlistarsenunni, sem upptökustjóri, framleiðandi og plötusnúður, Nina er dugleg að kynna hljóð og vera rödd neðanjarðarsenunnar í danstónlist bæði frá heimalandinu og annars staðar.

ónlistarhátíðin Iceland Airwaves er nú í fullum gangi. 

 

Laugardagslög RÚV núll eru vikulegur liður á vefsíðunni með það eitt að markmiði að keyra þig í gang. Við mælum með að fylgja Spotify lagalistanum fyrir fullkomna uppskrift að stuði á hverjum laugardegi.