Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Látlaus gagnrýni Vigdísar á embættismenn

09.02.2016 - 18:28
Mynd með færslu
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Mynd: RÚV
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, hefur verið gagnrýnd fyrir ummæli sem hún lét falla um embættismenn hjá Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytinu á dögunum. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra telur að ekki sé fótur fyrir orðum Vigdísar en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún gagnrýnir störf opinberra starfsmanna. Hér að neðan eru nokkur dæmi.

Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, skrifaði forseta Alþingis bréf vegna ummæla sem Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, lét falla í viðtölum í síðustu viku. Annars vegar sakaði hún Ríkisendurskoðun um sofandahátt og hins vegar sagði hún það ekki traustvekjandi að það væru fjölskyldutengsl milli ríkisendurskoðanda og fjármálaráðuneytisins en Sveinn Arason og Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, eru bræður.

Viðbrögð Vigdísar við bréfinu hafa meðal annars verið þau að saka ríkisendurskoðanda um þöggunartilburði.

Sakar embættismenn um lögbrot

Í öðru viðtalinu, sem Sveinn vísar í, fer Vigdís líka hörðum orðum um starfsmenn fjármálaráðuneytisins og sakar þá um lögbrot, það er skjalafals. Forsagan er sú að þingmenn á Alþingi óskuðu í fyrra eftir gögnum um stofnun nýju bankanna árið 2009. Fjármálaráðuneytið lét þinginu gögnin í té, bæði þau sem óskað var eftir en líka minnisblöð og vinnugögn sem ekki hafði verið óskað eftir en sum þeirra voru trúnaðarmál. Í viðtalinu segir Vigdís:

„Það er búið að eiga þarna við pappíra. Það vantar þarna inn töluliði á blaðsíður, þetta eru ekki frumgögn, þetta eru ljósrit. Og það vantar þarna inn fullt af pappírum. Það sem ég er búin að sjá, þá er þetta grafalvarlegt mál og lögbrot því að skjalafals varðar við hegningarlög“.

Vigdís hélt áfram og líkti þessu við hrunmálin hjá sérstökum saksóknara:

„Þau mál sem hafa verið til umfjöllunar hjá dómstólum og hjá sérstökum saksóknara hafa byggt á nákvæmlega þessum grunni, tölvupósti, horfnum skjölum, eyddum skjölum og svo framvegis. Það var farið inn til einstaklinga og tölvur speglaðar ef búið var að setja gögn í tætaranna þannig að þetta er algjörlega samhliða mál eins og mál hjá sérstökum saksóknara frá hruni nema þarna erum við að fjalla um ráðuneyti, hið opinbera.“

Fjármálaráðuneytið svaraði með fréttatilkynningu en annars er fátítt að embættismenn eða opinberir starfsmenn svari fyrir slíkar ávirðingar sem þeir hafa orðið fyrir.

Ásakanir um andlegt ofbeldi

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Vigdís fer hörðum orðum opinbera starfsmenn. Í lok nóvember kvartaði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, undan ókurteisi forystu fjárlaganefndar en hann var gestur á fundi nefndarinnar til að færa rök fyrir auknum framlögum til landspítalans.  Vigdís sagði í viðtali að á þessum tíma árs, þegar fjárlagavinnan stendur sem hæst, sé sótt að fjárlaganefndinni.

„En við látum ekki svona andlegt ofbeldi ná til okkar“

bætti hún við.

Embættismenn vilja vildarpunkta fyrir fjölskylduna

Í júlí, síðastliðnum, var útboði á flugfarmiðakaupum ríkisins frestað. Af því tilefni vændi Vigdís embættismenn um að vilja misnota aðstöðu sína til að fá ódýrari flugferðir fyrir fjölskyldur sínar. Hún skrifaði á facebook:

„Allt í stíl – enda vilja embættismenn helst ferðast með Icelandair til að fá vildarpunkta fyrir fjölskylduna !!! Talandi um jöfnuð í samfélaginu“.

Efast um skýringar embættismanna til Alþingis

Í fyrra voru kallaðir til embættismenn á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna ásakana Víglundar Þorsteinssonar. Vigdís gagnrýndi þá í viðtali og sagði að skyndilegt minnisleysi þeirra vegna málsins væri ekki trúverðugt. Fullyrðingar þeirra um að fundargerðir sem varða málið væru heldur ekki trúverðugar.

„Ég veit alveg hvernig bókunarkerfi í ráðuneytum og annars staðar virka, það eru skráð inn fundir og það er mjög stíft bókhald um það, þannig að mér finnast það alls ekki gild rök árið 2015 að segja að einhverjar fundargerðir séu týndar“

sagði Vigdís í viðtalinu. 

Stjórnendur ohf-félaga eins og smákrakkar í sælgætisbúð

Vigdís hefur margoft gagnrýnt stjórnendur ISAVIA ohf, sem á og rekur Keflavíkurflugvöll. Síðasta sumar tók hún undir gagnrýni vegna mikils álags á Keflavíkurflugvelli. Hún gagnrýndi sérstaklega að fjármunum skyldi varið í endurbætur á verslanasvæðinu í flugstöðinni frekar en stækkun hennar og skrifaði á facebook:

„sumir eru límdir í stólana sína hvað sem á gengur“. 

Í fyrra var greint frá því að stjórnendur ISAVIA hefðu bíl til umráða frá félaginu auk þess sem félagið hefði greitt fyrir farmiða maka forstjórans. Vigdís skrifaði þá á facebook:

„Það virðist vera sama steypan í rekstri ISAVIA og Íslandspósts – bæði félögin eru ohf. Ég hef fyrir löngu efast um það rekstrarform – forstjórar og stjórnir ohf félaga ríkisins haga sér eins og smákrakkar í sælgætisbúð – og svo er sagt við fjárveitingarvaldið – ykkur kemur þetta ekki við.“

Forstöðumenn æstir í glópagull

Í ágúst árið 2013 var rætt um að vegna afstöðu nýrrar ríkisstjórnar til umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu féllu IPA styrkir niður. Styrkirnir voru veittir stofnunum til að undirbúa og auðvelda aðild að sambandinu. Vigdís kallaði styrkina glópagull og sagði:

„Þetta er ákveðin hertækni hjá Evrópusambandinu að lofa fé og æsa upp forstöðumenn ríkisstofnanna og starfsmenn þeirra við það að fá fjármagn til þess að fara í einhver verkefni.“ 

Gagnrýnir líka starfsfólk Alþingis

Vigdís hefur líka sent starfsmönnum Alþingis sneiðar. Það vakti talsverða athygli þegar hún rifjaði upp þegar virðing Alþingis var meiri og starfsfólk Alþingis ávarpaði ekki þingmenn af fyrra bragði.  Það vakti líka athygli árið 2010 þegar Vigdís lagði fram þingsályktunartillögu á þingi þess efnis að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald ESB viðræðna samhliða kosningum til stjórnlagaþings. Sú tillaga kom of seint fram miðað við þá nýsamþykkt lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þegar Vigdísi var bent á það gagnrýndi hún stafsmenn Alþingis fyrir að hafa ekki bent sér á misræmið. Frumvarpið hefði verið sent embættismönnum í þinginu til yfirlestrar og enginn rekið augun í að tillagan stæðist ekki lög.

Ráðherra ekki rekist á neitt óeðlilegt

Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins vill ekki tjá sig um nýjustu ásakanir Vigdísar og vísar í tilkynningu ráðuneytisins. Í henni kemur meðal annars fram að ráðuneytinu hafi ekki borist neinar athugasemdir frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kannast ekki við neitt misjafnt í ráðuneytinu.

Hér er um að ræða gögn og atburði sem áttu sér stað áður en ég kom inn í ráðuneytið, ef ég skilið þessi ummæli rétt. En þeir sem gruna aðra um skjalafals eða aðra ólögmæta gjörninga eiga bara að snúa sér til lögreglunnar ég held að það sé langeinfaldast.

Bjarni segist ekki sjá að fótur sé fyrir þessum stóru orðum.

En ég ætla ekki að draga úr þessum þingmanni eða öðrum að láta kanna hvort að allt sé með felldu og hvet menn bara til þess að láta skoða það eftir því sem þeir telja tilefni til en ég hef ekki rekist á neitt óeðlilegt þann tíma sem að ég hef verið í ráðuneytinu.

Vigdís Hauksdóttir segir að það sé ekki í höndum þingmanna að kæra til lögreglu, en að umboðsmaður Alþingis geti hafið frumkvæðisathugun. Hún og varaformaður fjárlaganefndar hafi átt mjög góðan fund með forseta Alþingis í liðinni viku þar sem þau fóru fram á að gögn málsins yrðu þýdd og trúnaði af þeim aflétt, og málið í kjölfarið rannsakað. Forseti hafi ætlað að kanna hvaða úrræði hann hefði og til standi að eiga annan fund með honum í næstu viku.