Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Láta ekki fleiri Ok heimsins hverfa

18.08.2019 - 21:14
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
„Ég kvaddi Ok í dag með þeim hætti að heita því að gera það sem ég get til þess að koma í veg fyrir að fleiri jöklar á Íslandi hverfi,“ sagði umhverfisráðherra við minningarathöfn um Okjökul í dag. Ok er stærsti jökullinn sem missir titil sinn á Íslandi. „Bráðlega bráðna jöklar sem eru stærri en Ok. Ég á ekki von á því að það verði hægt að bjarga þeim úr því sem komið er,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur.

Minningarskjöldur um Ok var settur í sæti jökulsins sem var í dag. Um 100 manns lögðu leið sína á fjallið til að vera viðstaddir viðburðinn. „Ok jökull fór hraðar en ég átti von á að hann myndi gera. Það er eiginlega ekkert eftir að honum. Það er kannski einn hektari, eða eitt prósent af ferkílómetra. Hann var áður 15-16 ferkílómetrar,“ segir Oddur Sigurðsson, sem las við athöfnina óformlegt dánarvottorð Oks sem jökuls. Á því stendur að ekkert hafi verið gert til að bjarga honum og ástæður dauða voru óhófleg sumarhlýindi.

Komið að ögurstundu

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd

„Það er að renna upp fyrir okkur að það er komið að ögurstundu. Við þurfum að snúa við eiginlega öllu á næstu 20-30 árum. Til þess að í rauninni að okkar menning verði ekki dæmd ónýt af komandi kynslóðum,“ segir Andri Snær Magnason, rithöfundur, sem skrifaði áletrunina á minningarskjöldinn. Á honum er ákall til framtíðarinnar. 

„Ok á skilaboð og er með skilaboð til heimsins um að hér í heiminum er hamfarahlýnun að eiga sér stað. Það má segja að það sé neyðarástand sem ríkir víða vegna loftslagshamfara. Það mun bara aukast í framtíðinni. Ef ekki verður gripið til aðgerða sem að ekki bara koma í veg fyrir að fleiri jöklar hverfi, heldur snúi þessari þróun við sem er svo mikilvægt fyrir okkur á jörðinni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

„Að láta ekki fleiri Ok heimsins hverfa“

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd

„Við þurfum róttækar aðgerðir í þessum málum. Þetta er ekki eitt annað frumvarpið um eitthvað bókhaldskerfi. Þetta er í alvöru um það hvort við ætlum að eiga framtíð á þessari jörðu eða ekki,“ sagði Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Hún samdi ljóð í tilefni dagsins. „Þjóð mín heyrðu þennan fund, því þetta er okkar ögrastund,“ sagði Gunnhildur. Hún telur að örlög Oks opni augu fólks við loftslagsvandanum.

„Það þarf meiri kraft í þetta. Ekki síst að breyta hugarfarinu, að við tökum höndum saman, að láta ekki fleiri Ok heimsins hverfa,“ sagði Guðmundur Ingi jafnframt.

Segir ekki hægt að bjarga þeim jöklum sem eftir eru

Oddur segir að jöklar sem séu stærri en Ok missi nafn sitt vegna bráðnunar bráðlega. Er einhver von til þess að bjarga þeim? „Nei, ég á ekki von á því að það verði neitt sem hægt er að gera til að bjarga þeim enn sem komið er. Hvort að það verði hægt að bjarga einhverjum af íslensku jöklunum - það skal ég láta ósagt en þeir verða ekki svipur hjá sjón,“ segir hann.

Hvernig er tilfinningin að koma með þennan minnisvarða hér upp í dag, hafandi skrifað áletrunina? „Þetta var í rauninni frekar hjartnæmt. Maður horfir yfir Langjökul og jöklana hér í kring. Maður veit að þessi er farinn og þeir eru næstir í röðinni. Þetta var óraunveruleg fyrirspurn. Þegar ég var beðinn um að skrifa minnisvörð um jökul, sem nú er farinn, þann fyrsta. Hvað þá að skrifa það í kopar. Maður skrifar venjulega ekki í jafn varanlegt form. Koparinn mun líklega endast lengur enn steinninn. Hann veðrast en koparinn er nánast eilífur,“ svarar Andri Snær.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV