Gönguferðin í dag er farin til að minnast jökulsins Oks. Bandarískir vísindamenn, Oddur jarðfræðingur, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Andri Snær Magnason rithöfundar voru meðal þeirra rúmlega hundrað manns sem söfnuðust saman við Ok í hádeginu í dag. Þar tóku Katrín og Andri Snær til máls.
Fjölmennur hópur gekk af stað upp á fjallið til að afhjúpa minnisvarða sem þar hefur verið komið fyrir. Á honum stendur: „Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið. Þetta minnismerki er til vitnis um að við vitum hvað er að gerast og hvað þarf að gera. Aðeins þú veist hvort við gerðum eitthvað.“ Sami texti er líka á ensku á minnisvarðanum.