Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Lárus Welding í gæsluvarðhaldi

30.11.2011 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, er einn hinna þriggja sem sérstakur saksóknari handtók í dag vegna rannsóknar á starfsemi Glitnis fyrir hrun. Samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu var hann úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í dag.

Minnst þrír voru handteknir í dag í tengslum við viðamikla rannsókn Sérstaks saksóknara á viðskiptum með hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir hrun. En meðal annars leikur grunur á auðgunarbrotum. Þá hafa á annan tug verið yfirheyrðir í tengslum við rannsóknina sem er mjög viðamikil að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara.

„Við vorum að opna nokkuð af nýjum málum í morgun og fórum í það að yfirheyra menn í dag. þetta eru aðgerðir sem hófust um sjö leytið í morgun og standa yfir enn.“

Það eru alls tíu mál sem rannsóknin og aðgerðirnar í dag taka til og eru níu þeirra eru ný. Rannsóknin snýr að kaupum Glitnis á hlutabréfum í bankanum sjálfum og einnig kaup bankans og ráðstöfun á hlutabréfum í FL Group. Þá eru til rannsóknar lánveitingar til ýmissa , vegna kaupa á hlutabréfum sem gefin voru út árin 2007 og átta. Höfuðstóll þeirra lána nemur um 37 milljörðum króna. Sérstakur saksóknari rannsakar að auki framvirk viðskipti með hlutabréf í bankanum og sölutryggingu Glitins á hlutafjárútboði FL Group.

Fjöldi manna hefur verið yfirheyrður.

Grunur leikur á auðgunarbrotum, brotum á lögum um verðbréfaviðskipti, fjármálafyrirtæki, ársreikninga og bókhald. Um er að ræða fjölmörg tilvik og háar fjárhæðir.

Málunum var vísað til sérstaks saksóknara annarsvegar með kærum frá Fjármálaeftirlitinu og hinsvegar með tilkynningum frá slitastjórn Glitnis . Ráðgert er að yfirheyrslurnar sem hófust í morgun standi áfram næstu daga. 

Ólafur segir aðgerðirnar viðmiklar en 60 starfsmenn embættisins tóku þátt í þeim. Hann vildi að öðru leyti lítið tjá sig.

„Málið er í rannsókn og aðgerðir standa yfir þannig að á þeim tíma þá eru rannsóknaraðilar í slæmri aðstöðu til að segja nokkuð.“