Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lars Løkke gefur Jafnaðarmönnum undir fótinn

17.05.2019 - 06:39
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og formaður Venstre, lætur í það skína í nýrri viðtalsbók að hann geti vel hugsað sér að mynda ríkisstjórn með flokki Jafnaðarmanna. Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmanna, gefur lítið fyrir þá hugmynd.

Í bókinni ræðir rithöfundurinn og blaðamaðurinn Kirsten Jacobsen við Lars Løkke og spyr hann hvort hann geti hugsað sér að mynda stjórn með Jafnaðarmönnum í ljósi styrkrar stöðu þeirra og minnkandi fylgis Venstre og samstarfsflokkanna í ríkisstjórninni.

Løkke svarar því til að slíkt samstarf yrði sjálfsagt ekki vandalaust, en hann sé ekki í nokkrum vafa um að rétt sé að leggja þetta til, enda sé nú þegar mikið pólitískt samstarf á miðju danska stjórnmálalitrófsins. Hann vísar því jafnframt á bug að í því felist einhver meiriháttar bylting ef Venstre og Jafnaðarmenn taki höndum saman eftir kosningar, þótt það hafi aldrei gerst áður. Hann færist hins vegar undan því að svara, hvort hann hafi rætt þennan möguleika við Mette Frederiksen.

Af viðbrögðum hennar að dæma virðist svo þó ekki vera, því hún sagðist hissa á þessu útspili Løkkes og vísaði hugmyndinni á bug. Samstarfsmenn Løkkes í stjórn borgaraflokkanna, þeir Anders Samuelsen, utanríkiráðherra og formaður Frjálslynda bandalagsins og Søren Pape Poulsen, leiðtogi Íhaldsmanna, eru líka rasandi yfir þessu daðri Lars Løkkes við Jafnaðarmenn og lýsa áhyggjum sínum af afdrifum borgarastéttarinnar.

Danskir kjósendur eru ekki á einu máli um, hversu góð hugmynd forsætisráðherrans er, ef marka má skoðanakönnun sem gerð var fyrir Danmarks Radio. Þriðjungur kjósenda, 33 prósent, segjast nokkuð eða mjög jákvæðir gagnvart hugmyndinni um samsteypustjórn Jafnaðarmanna og Venstre. 36 prósent eru nokkuð eða mjög andvíg slíku stjórnarsamstarfi, en 23 prósent hlutlaus. 

Þingkosningar fara fram í Danmörku hinn 5. júní næstkomandi.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV