Barátta intersex fólks snýst að miklu leyti um að hætt sé að gera aðgerðir á kynfærum ungbarna sem fæðast intersex. Í þætti dagsins er meðal annars talað við Bríeti Finnsdóttur sem mun þurfa að berjast við afleiðingar þess að gerð var aðgerð á kynfærum hennar, sem hafði alvarleg áhrif á hormónaframleiðslu hennar, þegar hún var einungis nokkurra mánaða gömul.
Hún segir aðgerðina ónauðsynlega en aðgerðin hefur valdið henni miklum veikindum, beinþynningu og því að Bríet hefur í nokkur skipti gengið í gegnum tímabil sem minna á breytingaskeiðið.
Þetta er fjórði þáttur Hinseginleikans. Þættirnir verða sex talsins og eru sýndir á vef RÚV og samfélagsmiðlum. Þættirnir eru framleiddir af RÚV núll, nýrri þjónustu RÚV við ungt fólk. Næstu tveir þættir fjalla annars vegar um eikynhneigða og hins vegar kynsegin fólk.