Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Langt því frá að herinn sé að koma aftur

22.08.2019 - 09:27
Mynd: RÚV / RÚV
Albert Jónsson, sem var sendiherra til þriggja ára í Bandaríkjunum og fimm ára í Rússlandi, segir af og frá að framkvæmdir Bandaríkjahers við Keflavíkurflugvöll þýði að herinn sé að koma aftur til landsins. Albert var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Sumir tala um að herinn sé að koma aftur. Það er ekki svo og langt því frá, og til þess vantar allar lykilforsendur það er ekki flóknara en það. Sú fyrsta er að það er ekkert ríki á meginlandi Evrópu sem getur náð þar ríkjandi stöðu. Rússland getur það ekki, hefur enga burði til þess og mun ekki hafa,“ segir Albert. 

Hann segir að ekkert ríki geti náð yfirráðum á meginlandi Evrópu eins og hætta var á í kalda stríðinu og seinni heimstyrjöldinni. Á tímum Obama-stjórnarinnar var gerð áætlun til að undirstrika skuldbindingar Bandaríkjanna og Natóríkja í garð Eystrasaltsríkjanna og Póllands vegna versnandi samskipta við Rússland. Albert segir að verið sé að endurnýja margar stöðvar Bandaríkjahers í Evrópu vegna þessa. Hér sé verið að breyta flughlaði og undirbúa öryggissvæðið ef ske kynni að það þyrfti að nýta það.

„Ef hið ólíklega gerðist, og það er mjög ólíklegt, ef til átaka kæmi við Rússland eða alvarlegs hættutíma í samskiptum við Rússland, þá hefði Ísland hlutverki að gegna sem lýtur að flutningum á hergögnum og liði yfir hafið í lofti og þá gætu flugvélar lent hér,“ segir Albert. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Albert Jónsson í heild sinni í spilaranum hér að ofan.