Langt í land í jafnréttisumræðunni

05.12.2018 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að fréttaflutningur síðustu daga af samtalinu á Klaustri bar sýni hversu langt sé í land í jafnréttisumræðunni. Guðmundur Ingi Kristins­son, for­maður þing­flokks Flokks fólksins, segir það af og frá að orðræðan í samtali þingmannanna á Klaustur bar sé almenn í þinginu.

Guðmundur Ingi sagðist í upphafi ræðu sinnar undir fundarliðnum Störf þingsins, hafa ætlað að ræða bág kjör öryrkja í aðdraganda jólanna. Hann telji sig þó knúinn til þess að ræða enn einu sinni um Klaustursmál, og það vegna orða formanns Miðflokksins í dag.  „Þá vil ég taka það sérstaklega fram að þegar háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segir að það sé almennt umræða hér á þingi, á þeim vettvangi, eins og hann vill orða það fór fram á þessum bar, þá vil ég taka fram að að svo er ekki og hefur aldrei verið í þetta tæpa ár sem ég hef verið hér og að klína því á alla aðra er með ólíkindum. Að sitja undir þessari umræðu er eiginlega stórfurðulegt og þeim til skammar sem ætla að réttlæta það, það er ekki hægt að réttlæta það.“

Hann hafi sjálfur starfað innan Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar og á fleiri stöðum og aldrei upplifað svona umræðu. Hvað þá að fara út af þinginu og inn á bar. „Fyrir utan það, að vera að drekka í vinnutíma, hlýtur að vera eitt það alvarlegasta sem við gerum. Ég hef aldrei orðið var við það hér, nema í þessu tilfelli. Við skulum bara hafa á hreinu að skömmin er þeirra og allar tilraunir til þess að koma því yfir á okkur, mun mistakast og við munum aldrei líða það. Þeir geta horft í spegil, þeirra er skömmin og þeir eiga að taka á sínum málum. Koma þeim ekki yfir á okkur.“ 

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að Klaustursmálið sýni hversu mikilvægt sé að karlar geri sig gildandi í umræðu um jafnréttismál. „Það sem maður verður auðvitað að segja sem karlmaður á þingi að þá er maður alveg ólýsandi sorgmæddur yfir því að þessi umræða skuli hafa farið niður á þetta plan og undirstrikar það sem hefur verið svo mikilvægt stef í umræðunni hér inni á þingi, í #metoo og rakarastofuráðstefnunni sem við stóðum fyrir í upphafi árs í framlagi Íslands til HeForShe átaks UNWomen um rakarastofuna einmitt, að karlar geri sig gildandi í jafnréttisumræðunni. Að karlar standi upp í þessari umræðu og segi: Þetta getum við ekki látið líðast. Svona umræðu, orðræðu, viljum við ekki sjá líðast í stjórnmálum né nokkurs staðar annars staðar.“

Þorsteinn segir að vandamálið sé greinilega landlægt í stjórnmálum. „Og þetta er ein af meginástæðum þess að konur endast að jafnaði mun skemur heldur en karlar. Mæta allt annarri og miklu vægðarlausari kvenfyrirlitningarumræðu á vettvangi stjórnmálanna. Þetta er ólíðandi og ég skora á alla karla hér inni á þingi að við tökum höndum saman um að segja: Nei. Hingað og ekki lengra. Þetta stoppar hér. Við getum ekki látið svona kvenfyrirlitningu, svona ótrúlegan mann bara skortir orð til að lýsa þessu, líðast hér innan veggja Alþingis. Þannig að, stopp, hingað og ekki lengra.“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti á fundi sínum í morgun, að tillögu Helgu Völu Helgadóttur formanns nefndarinnar, að kalla þá Bjarna Benediktsson, Guðlaug Þór Þórðarson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Braga Sveinsson, fyrir nefndina vegna ummæla um fundi þeirra vegna hugsanlegrar sendiherrastöðu fyrir Gunnar Braga Sveinsson fyrrverandi utanríkisráðherra. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur sagt líklegt að Gunnar Bragi hafi haft væntingar um sendiherrastöðu en engin loforð hafi verið gefin um slíkt. Þessir fjórir funduðu nýlega þar sem meðal annars var rætt um áhuga Gunnars Braga á að starfa erlendis. Þá hefur Bjarni Benediktsson tekið í sama streng og Guðlaugur Þór á Alþingi. 

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir að þessi hluti af málinu hafi verið undanskilinn því sem forsætisnefnd vísaði til sérstakrar siðanefndar. Þessi þáttur málsins eigi heima í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd og þar verði málið skoðað ofan í kjölinn.