Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Langmestur afli í Eystri-Rangá

10.08.2019 - 20:52
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Laxveiði hefur verið rýr það sem af er sumri. Veiðimenn eru hvattir til þess að sleppa laxi eða jafnvel sleppa því að veiða. Hins vegar hefur veiðst vel í Eystri-Rangá sem um miðja vikuna var orðin aflamesta á sumarsins en þá höfðu 1.823 laxar veiðst í ánni.

Frá þessu er greint á vef Sunnlenska. Á sama tíma í fyrra höfðu rúmlega 2.000 laxar veiðst í ánni. Töluverður munur er á Eystri-Rangá og ánni í öðru sæti, Selá í Vopnafirði, en þar hafa 794 fiskar veiðst það sem af er sumri. Ytri-Rangá og Hólsá eru í þriðja til fjórða sæti. Þar hafa veiðst 777 fiskar sem er töluvert minna en í fyrra en þá höfðu veiðst 1.892 fiskar á sama tíma.

Í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1 í gær sagði Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis Hafrannsóknastofnunar, að þurrkaástandið í ár geri það að verkum að fiskar eigi erfitt með að ganga í árnar og veiðimenn eigi erfitt með að athafna sig. Þá hafi það verið viðbúið að stofnarnir yrðu litlir því sá árgangur sem átti að standa undir smálaxagengdinni hafi mælst lítill. 

Segja upp samningi vegna dræmrar veiði

Dræmt veiðiár er farið að draga dilk á eftir sér. Á vef mbl.is er greint frá því að veiðifélagið Lax-á hafi sagt upp samningi sínum um veiði í Blöndu og Svartá. Eitt ár er eftir af samningnum en í samtali við mbl.is segir Árni Baldursson, framkvæmdastjóri Lax-ár, að ákveðið hafi verið að segja upp samningnum eftir þetta slæma veiðiár. Þá kemur fram í Morgunblaðinu í dag að að sums staðar séu veiðiréttareigendur farnir að finna fyrir þrýstingi um að lækka verð á leigu í laxveiðiám. Veiðimenn vonist þó til að næsta sumar verði vænlegra í veiðinni, sérstaklega þar sem veðurfar hefur verið gott í sumar. 

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV