Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Langar mest að leggjast í híði í heilt ár

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Langar mest að leggjast í híði í heilt ár

18.03.2020 - 17:48

Höfundar

Aðdáendur Eurovision á Íslandi eru margir í sárum eftir að fregnir bárust um að ákveðið hafi verið, í fyrsta sinn í sögu keppninnar, að aflýsa henni. Það þykir sérlega grátlegt í ljósi þess að Daða og Gagnamagninu var spáð afar góðu gengi í ár en ekki er ljóst hvort sömu framlög taka þátt að ári liðnu.

Veiruvargurinn sem veldur COVID-19 breiðist hratt út og hefur haft gífurleg áhrif á líf fólks bæði á Íslandi og um allan heim. Hversdagurinn er orðinn afar frábrugðinn því sem fólk á að venjast með tilheyrandi sóttkví og samkomubanni. Fyrirhuguðum ferðalögum og mannamótum hefur verið frestað og sömuleiðis berast fréttir af því á hverjum degi að stórum viðburðum hafi verið aflýst vegna útbreiðslu veirunnar. 

Fyrr í dag bárust þær fregnir frá EBU að ekkert verði af Eurovision-keppninni sem átti að fara fram í Rotterdam í maí. Það eru stórtíðindi, sérstaklega í ljósi þess að þetta er í fyrsta sinn í 64 ára sögu keppninnar sem þetta er gert. Því er ljóst að Daði Freyr er ekki að fara að sigra í keppninni fyrir Íslands hönd eins og vonir margra stóðu til - að minnsta kosti ekki í bili því ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hann fær tækifæri til að taka þátt með sama lag að ári liðnu eða hvort óskað verði eftir nýjum framlögum.

Aflýst í fyrsta sinn í 64 ár

Þrátt fyrir að sá harmur sé sannarlega ekki sá mesti sem slíkur heimsfaraldur veldur eru margir hryggir. Daði Freyr greindi frá því á Twitter að hann væri vonsvikinn yfir fregnunum en þakklátur fyrir allan stuðninginn sem hann og Gagnamagnið hafi fundið fyrir síðustu vikur.

Fregnirnar eru einnig sláandi fyrir aðdáendur keppninnar og eru meðlimir áhugamannafélags Eurovision á Íslandi margir í sárum. Ísak Pálmason gjaldkeri og Laufey Helga Guðmundsdóttir ritari FÁSES ræddu við Önnu Marsibil Clausen í Lestinni. Þau segja að síðustu klukkutíma hafi skilaboðum rignt yfir félagið með spurningum um hvernig þetta hafi getað gerst og hvað sé til bragðs að taka.

Þó hafi aðdáendur keppninnar átt von á að einhverjar breytingar yrðu á fyrirkomulagi hennar í ár en segjast hingað til hafa leyft sér að vera bjartsýnir. Það þýði hins vegar ekki lengur. „Ég held að flestir hafi búið sig undir að einhver tilkynning væri á ferðinni, það hafa verið ofsalega mikið af falsfréttum í gangi um þetta, en ég held að fáir hafi búist við að keppninni yrði aflýst,“ segir Laufey. Tilfinningar aðdáenda eru þó blendnar að sögn FÁSES-fólks og segist Ísak upplifa bæði sorg og þakklæti yfir að stjórnendur keppninnar þori að taka svo afdrifaríka ákvörðun með öryggi aðdáenda í huga. „Mann langar samt mest að leggjast í híði í eitt ár og bíða eftir næstu keppni.“

Eins og að aflýsa jólunum

Laufey viðurkennir að hún sé með tár á hvarmi og grátstafinn í kverkunum enda sé keppnin í raun eins og jólin fyrir henni og öðrum aðdáendum. Niðurstaðan sé hins vegar réttlætanleg. „Að því sögðu er þetta algjört fyrsta heims vandamál. Auðvitað er þetta rétt ákvörðun hjá skipuleggjendum því öryggi fólks er forgangsatriði. En okkur þykir þetta grátlegt,“ segir hún en bendir á að aðdáendur keppninnar hafi enn ýmislegt að gleðjast yfir með hækkandi sól.

Til dæmis verður kvikmynd Wills Ferrells, sem fjallar um Eurovision-ævintýri Íslands og fjörutíu ára eyðimerkurgöngu okkar í keppninni, frumsýnd á Netflix í maí. Myndin var að stóru leyti tekin upp á Húsavík og skartar hún fjölmörgum stórstjörnum og íslenskum leikurum. Það sé tilvalið tækifæri til að hóa saman í áhorfspartí á netinu með öðrum Eurovision-aðdáendum.

„Munum hanga á því að veiran hafi haft af okkur sigurinn"

Afar vafasamar en spaugilegar sögusagnir fóru á kreik þegar Daði skaust upp á listum veðbanka og stjörnur á borð við Russell Crowe fóru að sýna honum áhuga. Meðal annars sögðust einhverjir telja að Netflix hefði borgað fyrir þátttöku hans í keppninni og væri að beita sér fyrir sigri Íslands til að auglýsa kvikmyndina. Því hefur enn fremur verið fleygt fram í gríni í ljósi nýjustu fregna að kórónaveiran sé samsæri til að koma í veg fyrir langþráðan sigur Íslendinga í keppninni. „Ætli við munum ekki hanga á því fram í rauðan dauðann að þessi veira hafi haft af okkur fyrsta sigurinn?“ segir Laufey og hlær yfir sögunum.

Ísak og Laufey lýsa því yfir að lokum að meðlimir FÁSES á Íslandi séu með sorg í hjarta yfir fregnum dagsins en hafi skilning á aðstæðum og ákvörðun EBU. Keppnin standi fyrir samstöðu og ef það sé ekki hægt að koma fólki saman til að njóta hennar séu forsendur fyrir henni brostnar.

Rætt var við stjórnarmeðlimi FÁSES í Lestinni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Eurovision aflýst – Daði Freyr vonsvikinn

Tónlist

Eurovision aflýst vegna COVID-19

Tónlist

Russell Crowe tístir um Gagnamagnið

Menningarefni

Will Ferrell setur Húsavík á hliðina