Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Langar ekki að fá fylgi frá öfgahópum“

Mynd með færslu
 Mynd:
Sveinbjörg Birna Sveinbjarnardóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, segist lítið kæra sig um að sækja fylgi til öfgahópa. Hún segir að umfjöllun fjölmiðla síðustu daga spari Framsókn og flugvallarvinum stórfé sem annars hefði farið í auglýsingakostnað.

Sveinbjörg segist ekki hafa búist við því að viðbrögð við ummælum hennar um úthlutun lóðar til Félags múslima á Íslandi yrðu jafn sterk og raun bar vitni. 

„Nei, ég bjóst ekki við því. Alls ekki. Þetta hefur yfirgnæft öll önnur mál. Það kom mér á óvart og þetta hefur leitt til þess að við höfum þurft að eyða miklu minni pening í kosningabaráttuna. Ég vonast til þess að við séum að skila inn lægsta uppgjöri í kosningabaráttu sem hefur sést,“ segir Sveinbjörg Birna.

Hún segist vera brött og bjartsýn fyrir komandi kosningar og að hún finni fyrir meðbyr á vígvelli stjórnmálanna, eins og hún orðar það. „Fólki finnst að það sé að opna og taka umræðu um mál. Þetta snýst um skipulagsmál og lóðir í Reykjavík.“ 

Kannanir sýna að fylgi Framsóknarflokksins hefur aukist frá því Sveinbjörg Birna varpaði fram ummælum þess efnis að hún vilji afturkalla úthlutun á lóð til byggingar mosku í borginni. „Ég bregst við þessu af stóískri ró,“ segir Sveinbjörg Birna um fylgisaukninguna. „Ég ætla bara að halda áfram að vinna þar til klukkan tólf á morgun. 

Sveinbjörg Birna segist lítið fylgjast með umræðu um hana sjálfa á netmiðlum. „Ég tók þá ákvörðun þegar ég fór í þetta framboð að halda mig eins og ég gæti frá netmiðlum og lesa hvorki níð né hól um mig. Ég er að vinna vinnuna mína. Ég lít á þetta þannig að fólk sjái stjórnmálakonur sem eru að stíga nýjar inn á vettvanginn og eru óragar við að taka umræðu, þrátt fyrir að fast sé skotið að þeim úr öllum áttum,“ segir hún. 

Hún segist þó lítt hrifin af þeirri tilhugsun að sækja fylgi sitt í raðir öfgahópa. „Mig langar ekki til að fá fylgi frá öfgahópum. Ég hef ekki talað illa um nein trúfélög eða trú. Í allri umræðu hef ég lagt mig fram um að tala um þetta af virðingu. Trú fólk er einkamál þess. 
Ég vil ekki að öfgaskoðanir viðgangist en ég held að þær viðgangist á báða bóga.“