Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landverðir fjarlægja „túristavörtur“

03.07.2019 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: Erika Brandt
Landverðir þurfa markvisst að fjarlægja litlar steinvörður eftir ferðamenn. Þetta er ekki nýtt af nálinni en nýjar vörður eru hlaðnar daglega í Vatnajökulsþjóðgarði. Þær raski ásýnd landsins og brýnt sé að auka fræðslu, segir þjóðgarðsvörður. 

Ferðamenn virðast keppast við að hlaða litlar steinvörður hér og þar. Það er orðið svo mikið um þær að talað er um túristavörtur. Helga Árnadóttir, þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulþjóðgarðs segir jafnvel óhætt að kalla þetta plágu. Hún segir þetta ekki nýtt af nálinni en ekki sé gott að segja hvers vegna fólk hlaði vörðurnar. Fólk virðist fara strax í það að hlaða grjóti sem verður á vegi þeirra og nýjar steinhleðslur eru myndaðar daglega á svæðinu í hennar umsjá.

Unnið sé markvisst að því að taka hleðslurnar niður og starfsmenn þjóðgarðsins, landverðir og fleiri reyni að fjarlægja þær strax því þegar ein sé komin sé alltaf hætta á að fleiri fylgi. Þetta sé hins vegar ekki hluti af landslaginu og ekki hluti af þeim svæðum sem fólk komi til að skoða og njóta og sérstaklega ekki innan friðlýstra svæða. Með því að hlaða vörðurnar sé fólk að setja mannlega ásýnd á náttúrulegt svæði. 

Steinvörður höfðu hér áður fyrr þann tilgang að vísa fólki veginn og teljast þær menningarminjar í dag. Hún telur að fólk sé almennt ekki upplýst um tilgang og sögu hinna gömlu steinvarða. „Við gætum gert meira á landsvísu í því að fræða gestina sem komi til okkar um það hvers vegna við teljum þetta ekki æskilegt.“

Umhverfisstofnun vakti nýlega athygli á vörðunum á Facebook og sagði þar frá Helenu landverði í Þjórsárdal sem var þá búin að verja rúmlega klukkutíma í að dreifa úr einum steinhrauk.