Landsvirkjun tapaði 2 milljörðum vegna ljósbogans

28.02.2020 - 13:37
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Landsvirkjun tapaði tekjum upp á 16 milljónir bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 2 milljörðum króna, þegar kerskála þrjú í álveri Rio Tinto I Straumsvík var lokað í júlí á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Samkvæmt ársreikningnum var hagnaður Landsvirkjunar á síðasta ári 21 milljarður króna og lækkaði um 5,9 prósent frá fyrra ári.

„Rekstur Landsvirkjunar litaðist af erfiðum ytri aðstæðum á árinu 2019, eins og árið áður. Afurðaverð stórra viðskiptavina var lágt og hafði það neikvæð áhrif á tekjur, enda er hluti samninga enn bundinn við þróun álverðs,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í afkomutilkynningu.

Hörður segir að þótt óveðrið í desember hafi ekki valdið truflunum í rekstri aflstöðva Landsvirkjunar hafi það haft áhrif á rekstur Landsnets, sem er hluti af samstæðu Landsvirkjunar. „Atburðarásin í desember staðfestir að brýn þörf er á því að styrkja flutningskerfi raforku á Íslandi,“ segir Hörður.

Þriðjungur framleiðslu álversins lá niðri eftir að slökkt var á kerskálanum. Ákveðið var að slökkva á kerskálanum eftir að svokallaður ljósbogi myndaðist þar. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi