Landsþingi Viðreisnar lokið

11.03.2018 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Landsþingi Viðreisnar lauk síðdegis í Reykjanesbæ. Í stjórnmálaályktun Viðreisnar segir að viðvörunarljós séu farin að loga á ný eftir hagfellda þróun efnahagsmála, og að ráðast þurfi í nauðsynlegar umbætur á peningastefnu í þágu heimila og fyrirtækja. Rót vandans sé óstöðug smámynt.

Viðreisn vill að fæðingarorlof verði lengt í tólf mánuði og að dagvistun verði í boði eftir það. Heimild til nýtingar á séreignasparnaði við kaup á húsnæði verði aukin. Lokið verði viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu, og heimildir verði rýmkaðar til skattafrádráttar nýsköpunarfyrirtækja og samkeppnishindranir á innlendum mörkuðum verði afnumdar. Viðreisn styður fjölbreytt rekstrarform menntastofnana og í heilbrigðiskerfinu. Viðreisn vill að gengisstöðugleiki og lægri vextir verði tryggðir með upptöku evru. Og jafnvægi í gengismálum og lægri vextir séu landsbyggðinni sérlega mikilvæg þar sem stór hluti fyrirtækja byggi á útflutningi. Þá séu góðar samgöngur og örugg fjarskipti um allt land besta byggðastefnan. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi