Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Landssamtök um Landsspítala stofnuð í dag

09.04.2014 - 23:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Fullt var út úr dyrum á stofnfundi Landssamtaka um nýjan Landspítala í dag. Fólki sextíu ára og eldri mun fjölga um 50 prósent á næstu 15 árum og við það eykst álag á spítalann.

Fólk úr ýmsum áttum kom saman á stofnfundi landssamtaka sem vilja vinna að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala undir kjörorðinu Spítalinn okkar. Samtökin telja að ef ekki verði gerðar nauðsynlegar úrbætur á húsnæði spítalans muni skapast alvarlegt ástand á næstu árum hvað varðar húsnæði, starfsfólk og tæknibúnað spítalans. 

Bent er á að Íslendingum eldri en sextíu ára muni fjölga um 3 prósent á ári að minnsta kosti til ársins 2050 samkvæmt spá Hagstofunnar. Sá aldurshópur vegi langþyngst í verkefnum spítalans og að á næstu 15 árum fjölgi um 50 prósent í þessum hópi, úr 60 þúsund í 90 þúsund manns. Þá fjölgi tilfellum sykursýki, lungnasjúkdóma og krabbameina. Allt verði þetta til að auka mjög álag á spítalann.

Heildarkostnaður við nýbyggingar spítalans er áætlaður 50,2 milljarðar króna. Þá er kostnaður við endurbætur á eldra húsnæði áætlaður 13 milljarðar króna.  Anna Stefánsdóttir, fyrrverandi hjúkrunarforstjóri, var kjörin formaður stjórnar samtakanna.