Landsréttur staðfestir hálfs milljarðs sekt yfir MS

27.03.2020 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: MS
Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem MS var gert að greiða 480 milljónir í sekt fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína og torvelda rannsókn eftirlitsins.

 

Málið á sér nokkurn aðdraganda. Fyrir sex árum sektaði Samkeppniseftirlitið  MS um 370 milljónir.  

Eftirlitið taldi að MS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að krefja Mjólkurbúið KÚ um allt að 17 prósent hærra verð fyrir hrámjólk en Kaupfélag Skagfirðinga og aðra tengda aðila. 

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þá ákvörðun úr gildi og fól Samkeppniseftirlitinu að rannsaka málið að nýju vegna nýrra gagna sem MS hafði framvísað eftir að rannsókn lauk. Samkeppniseftirlitið komst að sömu niðurstöðu og áður en hækkaði sektina um 110 milljónir. 

Málið fór því fyrir dómstóla þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.  MS áfrýjaði þeim dómi til Landsréttar sem komst að sömu niðurstöðu í dag.

 

Málið hófst þegar Mjólkurbúið Kú kvartaði til Samkeppniseftirlitið eftir að hafa komist að því, nánast fyrir tilviljun, að MS væri að rukka fyrirtækið um 17 prósent hærra verð fyrir óunna mjólk en keppinautana. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi