Landsréttur hafnaði kröfu Isavia í ALC-málinu

31.08.2019 - 21:35
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur hafnaði fyrir helgi kröfu Isavia sem krafðist þess að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í deilunni við ALC yrði felldur úr gildi. Héraðsdómur gerði Isavia að afhenda bandaríska leigufélaginu Airbusþotu sem kyrrsett var gegn öllum skuldum WOW air og að réttaráhrifum úrskurðarins yrði ekki frestað. Airbusþotunni var flogið af landi brott tveimur dögum seinna.

Landsréttur segir að þar sem ALC hafi fengið farþegaþotuna sína hafi Isavia ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu héraðsdóms hnekkt.  Var þeim hluta því vísað frá. 

Af þeim sökum þótti dómstólnum heldur ekki ástæða til að fjalla um þá niðurstöðu héraðsdóms að málskot fresti ekki réttaráhrifum úrskurðarins og var þeirri niðurstöðu því einnig vísað frá. 

Ekki liggur fyrir hver næstu skref í málinu verða. Isavia ætlar mögulega að reyna innheimta þær kröfur sem fyrirtækið telur sig eiga inni. ALC mun að öllum líkindum höfða skaðabótamál á hendur Isavia þar sem miðað verður við þann tíma sem vélin var kyrrsett eða þrír og hálfur mánuður. ALC lýsti kröfu upp á 9 milljarða í þrotabú WOW og Isavia upp á 2,2 milljarða. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi