Landsnet varar við álagi á flutningskerfið vegna veðurs

13.01.2020 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Landsnet gerir ráð fyrir að veðrið muni hafa áhrif á flutningskerfi rafmagns vegna vinds og ísingar, þar sem „enn ein lægðin nálgast landið,“ eins og segir í tilkynningu Landsnets.

Þar kemur fram að hætta er á samslætti á línum suðaustan- og sunnanlands frá miðjum degi og fram á nótt, og á Vesturlandi undir kvöld. Skýjaísing verður á Vestfjörðum og austanlands í nótt og á morgun, en slíkt er það kallað þegar dropar berast með skýjum eða þoku yfir land og snöggfrjósa þegar þeir lenda á föstum hlut, til dæmis loftlínum.

Einnig er varað við slydduísingu í fyrramálið, jafnvel með seltu á línum í byggð á Norðaustur- og Austurlandi. 

Í veðurhorfum næsta sólarhringinn má búast við norðaustan 20-28 m/s, skafrenningi um allt land og víða él. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að búist er við stormi eða roki víða um land, og hríð eða stórhríð á Vestfjörðum og Norðurlandi í kvöld og á morgun. Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi um nær allt land í dag og fyrri partinn á morgun.