Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Landsdómur: Dagskráin gæti riðlast

05.03.2012 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði eftir að þinghaldi var frestað í landsdómi í dag að ekki væri ólíklegt að dagskrá réttarhaldanna yfir Geir riðlaðist þegar farið væri að draga vitni fyrir dóminn.

Andri sagðist þó vona að það tækist að ljúka aðalmeðferð málsins á tveimur vikum eins og gert hafi verið ráð fyrir.

Hvorki Geir H. Haarde né Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, gáfu kost á viðtali eftir að skýrslutöku lauk á sjötta tímanum.

Skýrslutakan yfir Geir tók tæpa átta tíma og Geir var spurður um margvísleg gögn sem tengjast ákæruliðunum fjórum. Sigríður Friðjónsdóttir lagði til grundvallar ýmis gögn sem hún hafði safnað að sér eins og fundargerðir og tölvubréf. Í spurningum sínum reyndi hún að draga fram hvað Geir vissi um erfiðleika bankakerfisins og stöðu Icesave, hvað hefði verið gert til að bregaðst við og hvort nógu mikið hefði verið að gert. Líka hvort Geir hefði fylgst með störfum samráðshópsins um fjármálastöðugleika og hvort þau störf hefðu verið nógu markviss miðað við þá stöðu sem uppi hafi verið árið 2008. Fram kom að í allnokkrum minnisblöðum frá janúar og febrúar hefði verið dregin upp dökk mynd af stöðu bankanna. Geir sagði að sér hefði aldrei verið skýrt frá þessum minnisblöðum, nema að því marki sem seðlabankastjórar sögðu frá.

Geir er ákærður fyrir fjögur atriði. Í fyrsta lagi að hafa ekki gætt þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika væru markvissar og skiluðu árangri. Í öðru lagi að hafa ekki haft frumkvæði að því að ríkið beitti sér fyrir því að dregið væri úr stærð bankakerfisins. Í þriðja lagi fyrir að hafa ekki fylgt því eftir að Icesave-reikningarnir í Bretlandi væru færðir í dótturfélag. Í fjórða lagi fyrir að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, eins og mælt er fyrir um í stjórnarskrá.

Rauði þráðurinn í málsvörn Geirs í dag var að hann teldi sig ekki hafa vanrækt að bregðast nægilega við í yfirvofandi hættu. Formaður samráðshópsins hafi til að mynda upplýst hann um þau mál sem sá fyrrnefndi taldi nauðsynlegt, um stærð bankakerfisins hafi allt verið gert sem hægt var að gera.

Það hafi þó ekki verið hægt að þvinga bankana til að selja eignir eða færa höfuðstöðvar sínar úr landi. Það hafi þó verið lagt að þeim en aðstæður hafi verið bönkunum óhagstæðar.

Um flutning Icesave-reikninga í dótturfélag Landsbankans hafi líka allt verið gert sem hægt hafi verið að gera, þó Geir hafi ekki sjálfur staðið í þeim samskiptum. Þáverandi stjórnarformaður Fjármáleftirlitsins og viðskiptaráðuneytið hafi ýtt eftir því þó það hafi svo verið án árangurs.

Vitnaleiðslur hefjast klukkan tíu í fyrramálið þegar Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, kemur fyrir dóminn. Eftir hádegi koma svo Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans, og Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, fyrir dóminn.