Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Landsbyggðin verður afskekktari

26.09.2012 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsbyggðin í heild sinni verður afskekktari, atvinnulíf einhæfara, kostnaður við sjúkraflug eykst og öryggi sjúklinga minnkar ef miðstöð innanlandsflugs á Reykjarvíkurflugvelli verður flutt til Keflavíkur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem KPMG vann fyrir sex sveitarfélög um málið.

 

Í skýrslunni, sem var kynnt í dag, kemur meðal annars fram að flugferðum innanlands fækki um fjörtíu prósent, flugferðum á leiðum sem í boði verða fækkar úr 37 í átján og innanlandsflug til Ísafjarðar, Hornafjarðar og Vestmannaeyja leggst af.  

Þá segir einnig í skýrslunni að samgöngur innanlands verði dýrari og óhagkvæmari og að ferðakostnaður íbúa landsbyggðarinnar aukist um sex til sjö milljarða króna.

Í skýrslunni er einnig dreginn upp svört mynd af menntun og skólastarfi ef flugvöllurinn í Reykjavík verður fluttur til Keflavíkur. Fjölbreytni í menningarlífi dragist saman og þá telja skýrsluhöfundar að erfiðara verði að standa undir metnaðarfullu og skapandi menningarlífi án góðra samgangna. Þá verði atvinnulíf einhæfara og landsbyggðin í heild sinni afskekktari þegar innanlandsflug dregst saman.

Hægt er að lesa skýrsluna hér að neðan en sveitarfélögin sex sem létu vinna skýrsluna eru Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Akureyrarbær, Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð, Hornafjörður og Vestmannaeyjabær.