Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Landsbankinn hagnast mest

30.08.2013 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsbankinn skilaði fimmtán og hálfs milljarðs króna hagnaði á fyrri hluta ársins. Arion banki hagnaðist um tæpa sex milljarða og Íslandsbanki um röska ellefu.

Bankarnir hafa allir skilað árshlutauppgjörum sínum fyrir síðasta ársfjórðung. Á fyrri hluta þessa árs hagnaðist Landsbankinn mest bankanna eftir skatta. Um 15,5 milljarða króna, en á sama tíma í fyrra nam hagnaður bankans tæpum 11,9 milljörðum.

Íslandsbanki hagnaðist um 11, 2 milljarða, litlu minna en á sama tíma í fyrra. Arion banki skilaði 5,9 milljörðum, miðað við 11,2 milljarða í fyrra. MP banki skilaði 460 milljónum króna á fyrri hluta ársins miðað við 119 milljónir um mitt síðasta ár. 

Landsbankinn á einnig mest. Heildareignir hans nema tæpum 1.130 milljörðum króna. Arion á tæpa 930 milljarða. Íslandsbanki á röska 823 milljarða og MP banki á 68 milljarða.  

Eigið fé Landsbankans var um 230 milljarðar þegar árið var hálfnað. Eigið fé Íslandsbanka nam 156 milljörðum og Arion banki átti fé sem nam tæpum 137 milljörðum króna. Eigið fé MP banka nam tæpum 6 milljörðum króna í lok júní.