Landlæknir var á neyðarvakt í háloftunum

21.03.2020 - 09:26
Mynd með færslu
 Mynd: Beggi - RÚV
Alma Möller, landlæknir, hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína að undanförnu í tengslum við kórónuveiru-faraldurinn, COVID-19. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hún er að neyðarvakt. Hún var um árabil yfirlæknir á gjörgæslu Landspítalans og var fyrst kvenna læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Hún varð síðar fyrsta konan til að vera skipuð landlæknir.

Elín Albertsdóttir, blaðamaður, rifjaði upp á Facebook viðtal sem hún tók við Ölmu og Helgu Magnúsdóttur fyrir DV árið 1991.  Þær voru þá báðar læknar í þyrlusveit Gæslunnar. 

Mynd af núverandi landlækni, tekin af Gunnari V. Andréssyni, prýddi forsíðu blaðsins.  Þar sést Alma síga niður úr þyrlu gæslunnar með varðskip í bakgrunni.  Forsíðan er fengin af vefnum tímarit.is

Alma sagði síðar frá því í viðtali við Læknablaðið að starfsmenn Gæslunnar hefði lagst gegn því að kona bættist við þeirra hóp. Þar hefðu verið nefndir hlutir sem tengdust fataskiptum og takmarkaðri klósettaðstöðu í þyrlunum. Þá hefðu menn viðrað áhyggjur sínar af því að konur væru ekki nógu sterkar fyrir starfið þar sem síga þyrfti úr þyrlu og bera sjúklinga. „Ég brást við með því að þjálfa vel í ræktinni og ekkert af þessu varð nokkru sinni vandamál.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi