
Landlæknir er sammála BDSM-samtökunum
Þetta kemur fram í svari Birgis Jakobssonar landlæknis við fyrirspurn fréttastofu, í kjölfar fréttar um að Ísland sé eina ríkið á Norðurlöndum þar sem BDSM-hneigðir eru enn þá skilgreindar sem geðsjúkdómur.
BDSM er samheiti fyrir bindi-, drottnunar- og sadómasókistaleiki og munalosta.
Fyrr í þessum mánuði sendu BDSM-samtökin landlækni bréf, þar sem þess var formlega óskað að BDSM-hneigðir verði teknar af sjúkdómslista hans. Þannig yrði fetað í fótspor hinna Norðurlandanna en BDSM var tekið út í Finnlandi 2012, Noregi 2010, Svíþjóð 2009 og í Danmörku á árunum 1994 og 1995.
Við þeirri spurningu, hvernig standi á því að Ísland sé eina ríkið á Norðurlöndum sem skilgreini BDSM á þennan hátt, svarar Birgir að málið hafi ekki verið uppi í því norræna samstarfi sem hafi verið á dagskrá frá því hann tók við starfi. Gott sé að samtökin veki máls á því.
Hann segist sammála þeirri skoðun sem fram kemur í bréfi samtakanna og sér ekkert því til fyrirstöðu að Ísland fylgi fordæmi nágrannalandanna.