Landsmenn eru að farast úr spenningi yfir landsleik Íslands og Austurríkis á EM í Frakklandi sem hefst klukkan 16 í dag. Fjölmargir vinnustaðir hafa auglýst skertan opnunartíma vegna leiksins og margir vinnuveitendur gefa starfsmönnum sínum frí til að þeir geti fylgst með. Hjá Landflutningum kepptust starfsmenn við að klára til að þeir kæmust heim að horfa á leikinn en afgreiðslum fyrirtækisins um land allt var lokað klukkan 14.
Í vinnuskóla Fljótsdalshéraðs var sumum lofað að þeir fengju að fara fyrr heim „Það er undir krökkunum komið hvað þau eru dugleg hvort við fáum að hleypa þeim fyrr heim,“ segir Þórhallur Elí Gunnarsson flokksstjóri. Einn nemandi vinnuskólans Ásdís Hvönn Jónsdóttir skar sig úr hópnum enda í landsliðsbúningi. „Ég ætla að fara í hitting með stelpunum sem ég er með í fótbolta og horfa á leikinn þar. Við fáum að fara fyrr heim ef við stöndum okkur vel.“