Ýmislegt hefur dregið á daga þeirra Gísla, Sigríðar, Eddu Sifjar, Gunnars og Þórgunnar á þessum tæpa sólarhring síðan útsendingin hófst í gær; það var stoppað í prentsmiðjum, kaffiboðum, kóræfingum, listasmiðjum, skipum, bensínstöðvum, jógatímum og svo mætti lengi telja. Síðast heyrðist af Eddu Sif og Sigríði á hafi úti, í Herjólfi og Baldri. Gísli Einarsson er á Seyðisfirði, síðast þegar heyrðist í Þórgunni var hún í Dalvík, og Gunnar var í kvöldmat á Borgarfirði Eystri.
Allt samfélagið er undir í sólarhringsútsendingu Landans; atvinnulíf, félagslíf, mannlíf og reynt að sýna sem allra mest af því sem drífur á daga landans á einum sólarhring. Landinn lítur á vinnustaði, kíkir út í búð, inn í eldhús hjá fólki, í fjós og víðar. Að auki fá áhorfendur að skyggnast á bak við tjöldin í sjálfri útsendingunni sem lýkur í kvöld klukkan 20:15.