Landeyjahöfn setur mjaldraferð í uppnám

11.04.2019 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Cargolux - www.cargolux.com
Landeyjahöfn verður lokuð á þriðjudag og gæti koma tveggja mjaldra til Vestmannaeyja því frestast. Spáð er vondu veðri í byrjun næstu viku. Forsvarsmenn Merlin Entertainment, sem sjá um mjaldraverkefnið, gerðu ráð fyrir siglingu um Landeyjahöfn þar til í morgun. Óttast er um öryggi hvalanna ef slæmt verður í sjóinn í þriggja tíma siglingu frá Þorlákshöfn.

Allt klárt í Eyjum

Undirbúningur komu tveggja mjaldrasystra frá Kína hefur staðið yfir síðan 2016. Hvalirnir eiga að að koma til Eyja á þriðjudag. Forsvarsmenn Merlin Entertainment og góðgerðarsamtakanna Sealife Trust hafa skipulagt komu hvalanna til hins ítrasta, með alls konar fjölmiðlaferðum og uppákomum. Mjaldrarnir hefja dvöl sína á Íslandi í risastórri hvalalaug í Vestmannaeyjum, sem er tilbúin, og þaðan verða þeir fluttir í Klettsvík eftir nokkurra vikna aðlögunartíma.

Landeyjahöfn ekki opnuð á næstunni og spáin vond

Gert er ráð fyrir að flugvél með mjöldrunum innanborðs lendi í Keflavík klukkan hálf ellefu á þriðjudag og þaðan verða þeir fluttir með bíl í Herjólf sem siglir með þá til Eyja. En nú er komið babb í bátinn. Dýpið í Landeyjahöfn var mælt í gær og fullyrðir Vegagerðin að höfnin verði ekki komin í gagnið á þriðjudag, líklega ekki fyrir páska, þar sem veðurspá er mjög óhagstæð. Þar að auki er spáin fyrir þrjðjudag alls ekki góð. 

Merlin Entertainment gerir ráð fyrir Landeyjahöfn

Í fjölmiðlatilkynningu frá Merlin Entertainment segir að ferðin hefjist sædýrasafni í Sjanghæ þar sem þeir verða settir í sitthvort ferðabúrið og þaðan ekið á flugvöllinn. Þar verða þeir settir í þar til gerða flugvél sem flýgur með þá til Keflavíkur. Í tilkynningunni er gert ráð fyrir hálftímasiglingu til Eyja, frá Landeyjahöfn, en hún verður þrír tímar, frá Þorlákshöfn. 

Áhyggjur að hvalirnir þoli ferðina illa 

Ferðalagið verður ansi langt fyrir mjaldrana, alls rúmlega 9200 kílómetrar, þar af 140 kílómetrar í bíl og 75 í bát. Ferðin tekur að minnsta kosti 20 klukkustundir, og þá er tíminn sem tekur að flytja hvalina milli farartækja ótalinn. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa umsjónarmenn dýranna áhyggjur af því að þau gætu illa þolað þriggja klukkustunda ferjuferð ef slæmt verði í sjóinn. 

Vissu ekki af lokun Landeyjahafnar

Samskiptafulltrúi Merlin Entertainment, Chloe Couchman, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að þessar upplýsingar væru nýtilkomnar og vinna væri í fullum gangi um hvort eitthvað þurfi að endurskoða. Móa Sigurðardóttir, samskiptafulltrúi CargoLux, sem hefur yfirumsjón með flutningunum í lofti, sagðist í samtali við fréttastofu telja að allt annað væri samkvæmt plani. Merlin Entertainment ætlar að veita frekari upplýsingar síðar í dag. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi