Landamærum lokað vegna ebólu

01.08.2019 - 10:16
Health workers wearing protective suits tend to to an Ebola victim kept in an isolation tent in Beni, Democratic Republic of Congo, on Saturday, July 13, 2019. The Congolese health ministry is confirming the country's first Ebola case in the provincial capital of 2 million, Goma, some 360 kilometers (225 miles) south of Beni. More than 1,600 people in eastern Congo have died as the virus has spread in areas too dangerous for health teams to access. (AP Photo/Jerome Delay)
Heilbrigðisstarfsmenn sinna ebólusjúklingi í Beni í Austur-Kongó fyrr í sumar. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Yfirvöld í Rúanda hafa lokað landamærunum við Austur-Kongó eftir að þriðja tilfellið af ebólu greindist í borginni Goma handan landamæranna.

Í tilkynningu sem stjórnvöld í Austur-Kongó sendu frá sér í morgun sagði að einungis Kongómenn sem ætluðu aftur til heimalands síns fengju að fara yfir landamærin. Þetta hefði verið einhliða ákvörðun yfirvalda í Rúanda, en hún myndi bitna á borgurum beggja landa sem þyrftu að fara yfir landamærin til vinnu.

Samtökin Læknar án landamæra greindu frá því í gær tveir væru látnir úr ebólu í Goma, en fáeinum klukkustundum síðar barst tilkynning um þriðja tilfelli ebólu í borginni.

Góma er stærsta borgin í héraðinu Norður-Kivu í austurhluta Austur-Kongó, en þar búa um tvær milljónir manna. Góma liggur að landamærunum að Rúanda, en þar tekur við borgin Gisenyi þar sem búa um 85.000 manns og er mikill samgangur þar á milli.

Ár er síðan ebóla blossaði upp að nýju í Austur-Kongó og hafa um 1.800 látist. Þetta er mannskæðasti ebólufaraldurinn síðan sjúkdómurinn geisaði í Gíneu, Líberíu og Sierra Leone á árunum 2014-2016. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi