Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landamærin opnuð á ný eftir 20 ár

11.09.2018 - 13:49
epa06893027 Ethiopia's Prime Minister Abiy Ahmed (L) and Eritrea's President Isaias Afwerki (R) attend the re-opening of the Eritrean embassy in the Ethiopian capital Addis Ababa, Ethiopia, in a brief ceremony 16 July 2018. The leaders declared
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, og Isaias Afwerki, forseti Erítreu, við opnun sendiráðs Erítreumanna í Addis Ababa í júlí. Mynd: EPA-EFE - EPA
Leiðtogar Eþíópíu og Erítreu voru viðstaddir þegar landamæri ríkjanna voru opnuð í morgun í fyrsta skipti í tvo áratugi. Til að byrja með verða einungis tvær landamærastöðvar opnar, við Zalambessa og Burre, þar sem voru einhverjir hörðustu bardagar í stríðinu milli ríkjanna fyrir tveimur áratugum. 

Stríð geisaði milli Eþíópíu og Erítreu árin 1998-2000 og voru samskipti þeirra eftir það afar stirð. Stríðið snerist meðal annars um yfirráð yfir landamærabænum Badme. Eþíópíumenn neituðu að láta hann af hendi og halda honum enn, þótt kveðið hafi verið á um það í friðarsamningum að hann tilheyrði Erítreu.

Það kom mörgum á óvart þegar tilkynnt var í júlí að sættir hefðu tekist milli ríkjanna og undirritað var formlegt friðarsamkomulag og samkomulag um að taka upp eðlilegt stjórnmálasamband á ný.

Síðan hafa sendiráð verið opnuð í löndunum tveimur og áætlunarflug hafist þar á milli, auk þess sem stjórnvöld í Erítreu samþykktu að veita Eþíópíumönnum aðgang að sjó. Haft var í gær eftir sjónarvottum að hermenn væru farnir að hreinsa upp jarðsprengjur á landamærum ríkjanna.

Í síðustu viku sömdu Erítreumenn frið við Djibouti eftir landamæradeilur sem staðið höfðu í tíu ár.