Kristín Jóhannesdóttir hefur gegnt titlinum leikstjóri allan sinn starfsaldur. Hún fór tvítug til Frakklands og nam þar kvikmyndaleikstjórn í tíu ár. Hún gerði kvikmyndina „Á hjara veraldar“ sem frumsýnd var vorið 1983 og „Svo á jörðu sem á himni“ tæpum áratug síðar. Þriðja kvikmynd hennar, „Alma“ er væntanleg árið 2018.
Árið 1986 var Kristín beðin um að gera myndina „Líf til einhvers“ fyrir Sjónvarpið út frá leikriti Nínu Bjarkar Árnadóttur. Þar var girnd þriggja kvenna til sama karlmanns í brennidepli og truflaði þetta óvenjulega sjónarhorn marga sjónvarpsáhorfendur svo úr varð bæði úlfúð og írafár. „Það var mjög sérstök reynsla að gera Líf til einhvers og viðbrögðin við henni, ég bara botna ekkert í þessu enn þann dag í dag. Það fór einhver hóp hystería í gang“.