Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lamin í Bankastræti af hneyksluðum áhorfanda

Mynd: Brautryðjendur / RÚV

Lamin í Bankastræti af hneyksluðum áhorfanda

05.07.2017 - 10:30

Höfundar

Sjónvarpsmyndin „Líf til einhvers“, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu á nýársdag árið 1987 vakti talsverða reiði í samfélaginu. Leikstjóri myndarinnar, Kristín Jóhannesdóttir, varð fyrir miklu aðkasti sem gekk svo langt að ráðist var á hana í miðborginni, þegar hún var kasólétt. „Ég bara botna ekkert í þessu enn þann dag í dag. Það fór einhver hóp hystería í gang,“ segir Kristín.

Kristín Jóhannesdóttir hefur gegnt titlinum leikstjóri allan sinn starfsaldur. Hún fór tvítug til Frakklands og nam þar kvikmyndaleikstjórn í tíu ár. Hún gerði kvikmyndina „Á hjara veraldar“ sem frumsýnd var vorið 1983 og „Svo á jörðu sem á himni“ tæpum áratug síðar. Þriðja kvikmynd hennar, „Alma“ er væntanleg árið 2018.

Árið 1986 var Kristín beðin um að gera myndina „Líf til einhvers“ fyrir Sjónvarpið út frá leikriti Nínu Bjarkar Árnadóttur. Þar var girnd þriggja kvenna til sama karlmanns í brennidepli og truflaði þetta óvenjulega sjónarhorn marga sjónvarpsáhorfendur svo úr varð bæði úlfúð og írafár. „Það var mjög sérstök reynsla að gera Líf til einhvers og viðbrögðin við henni, ég bara botna ekkert í þessu enn þann dag í dag. Það fór einhver hóp hystería í gang“.

Mynd með færslu
 Mynd: Dagur - Tímarit.is
Myndin fór fyrir brjóstið á mörgum

„Það getur vel verið að þetta sé eitthvað sem er í þjóðarsálinni. Nú eru kommentakerfin komin og það er allur ruslahaugur þjóðarinnar sem þar birtist. Þegar Líf til einhvers kom út þá var það bara síminn, það var hringt í mann, helst á næturnar þegar menn voru búnir að fá sér einn styrkjandi. Þá var bara látið vaða, og þvílíkt orðbragð. Ég hef aldrei heyrt annað eins,“ segir Kristín.

„Ég var komin átta mánuði á leið þegar hún kemur út þessi mynd. Og einu sinni er ég að labba niður Bankastrætið og það ræðst á mig maður sem lamdi mig sundur og saman. Heiftin var svo gífurleg yfir því sem ég hafði gert og ég vissi ekkert hvað ég hafði gert“

Mynd með færslu
 Mynd: Líf til einhvers - RÚV
Atriðið sem hneykslaði hvað mest

Senan sem vakti þessa reiði í samfélaginu var svipuð þeim sem sjást í flestum bandarískum framhaldsþáttum nú til dags, „smá kelerí upp á borði,“ segir Kristín. „Það gerðist ekki neitt. En menn sáu eitthvað alveg svakalegt gerast. Og það er það sem er svo skrítið.“

„Þarna voru þau bara búin að búa til einhverja aðra mynd heldur en ég hafði gert, en vildu samt lemja mig fyrir að hafa gert þessa mynd sem að þau höfðu búið til,“ segir Kristín. „Það má brosa að þessu núna, en mér var ekki skemmt.“

Í þáttaröðinni Brautryðjendur ræðir Eva María Jónsdóttir við konur sem hafa rutt brautina í einhverjum skilningi. Í síðasta þætti var rætt við leikstjórann Kristínu Jóhannesdóttur, en þáttinn í heild sinni má nálgast í Sarpinum.

Tengdar fréttir

Jafnréttismál

Konur eru ekki ókeypis vinnukraftur

Menningarefni

„Aldrei komist út úr þessu miðaldaviðhorfi“