Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lambhagi má nota heitið spínatkál

12.10.2016 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendastofa telur Lambhaga gróðrastöð ekki ástunda villandi eða óréttmæta viðskiptahætti þegar kemur að merkingu á spínatkáli. Þetta kemur fram í úrskurði Neytendastofu í máli sem snýr að kvörtun Hollt og Gott ehf yfir auglýsingum og merkingum á umbúðum vöru Lambhaga gróðrarstöðvar ehf.

Hollt og gott ehf kvartaði yfir notkun Lambahaga gróðarstöðvar á nafninu Spínatkál, sem áður var kallað Lambhagaspínat. Hollt og Gott lét gera erfðarannsókn á vörunni sem leiddi í ljós að ekki hafi verið um spínat að ræða. Því telji þeir að markaðssetning vörunnar og merking á umbúðum sé röng, villandi og brjóti gegn neytendalögum.

Forsvarsmenn Lambhaga höfnuðu þessum ásökunum. Hollt og gott hafði áður kvartað til Matvælastofnunar vegna þess að notast var við nafnið Lambhagaspínat. Eftir að Matvælastofnun gerði athugasemdir við nafn vörunnar var ákveðið að breyta því. Um sé að ræða plöntuna Brassica rapa sem á mörgum tungumálum sé rík hefð fyrir að kenna við spínat. Ekki sé til íslenskt heiti yfir þessa plöntu en nú selji Lambhagi hana undir nafninu Spínatkál. 

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu, eftir ábendingar Matvælastofnunar, að þar sem ekki sé til annað heiti á íslensku sem lýsi vörunni betur og oft sé þessi planta kennd við spínat þá sé einnig litið til þess að í auglýsingu þar sem verið er að auglýsa vöruna, komi fram heiti vörunnar, spínatkál, auk fræðiheitisins Brassica rapa en þar að auki er fjallað um kosti vörunnar borið saman við spínat og tilgreint fræðiheiti spínats, Spinacia oleracea. Neytendastofa metur það sem svo að ekki sé verið að reyna villa fyrir neytendum með því að telja þeim trú um að spínat sé að ræða þar sem tekið sé fram að þetta séu ólíkar vörur.

Neytendastofa komst því að neirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til aðgerða í þessu máli.

 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður