Lagt til að völd forseta verði aukin

01.12.2016 - 17:48
Erlent · Asía
Mynd með færslu
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Mynd: EPA - TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE
Tillögur um breytingar á stjórnarskrá Tyrklands sem fela í sér að forseti fái aukin völd verða lagðar fram á þingi landsins í næstu viku. Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, greindi frá þessu í dag og bætti við að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið yrði það samþykkt á þingi. 

Recep Tayyip Erdogan var kjörinn forseti Tyrklands árið 2014, en þá hafði hann gegnt embætti forsætisráðherra frá 2003. Erdogan er fyrsti forseti Tyrklands sem kjörinn er í almennum kosningum, en áður hafði þingið kosið forseta landsins.

Samkvæmt stjórnarskrá hefur forseti afar takmörkuð völd, en forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa sakað Erdogan um að seilast lengra í þeim efnum en heimilt er. Hann hefur enda ekki farið leynt með að hann vilji koma á forsetaræði líkt og í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagst gegn tillögum um breytingar á forsetaembættinu og sagt að verði þær samþykktar verði það til að festa í lög ástand sem þegar sé til staðar. Erdogan geti þá stjórnað nánast einráður án nokkurra afskipta.

Í byrjun voru allir stjórnarandstöðuflokkarnir þrír, sem eiga sæti á þingi, á móti tillögunum, en að sögn fréttastofunnar AP hefur MPH-flokkurinn, flokkur þjóðernissinna, skipt  um skoðun og leiðtogi hans, Devlet Bahceli, heitið því að styðja breytingatillögurnar í atkvæðagreiðslu á þingi.

Stuðningur MHP muni því tryggja tillögunum brautargengi. Til þess þurfi 330 atkvæði af 550, en stjórnarflokkurinn AK hafi 317 þingsæti, en MPH 40. Til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu þarf 367 atkvæði á þingi, en stjórnvald hafa engu að síður heitið því að bera málið undir þjóðina þótt svo verði.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi