Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lagt til að RARIK greiði 310 milljóna arð til ríkisins

28.02.2020 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: RARIK - RÚV
Hagnaður RARIK á árinu 2019 var um 2,7 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi sem birtur var í dag. Hagnaðurinn er svipaður og áætlanir gerðu ráð fyrir, en lækkaði um 2% frá árinu 2018. Stjórn RARIK leggur til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til ríkissjóðs. 

Rekstrartekjur hækkuðu um tæpt 1% frá árinu 2018 og námu 16.8 milljörðum króna og rekstrargjöld hækkuðu á milli ára um tæp 2% og námu 13.3 milljörðum króna. Minni veiking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og lægri verðbólga á árinu gerðu það að verkum að fjármagnsliðir voru heldur hagstæðari en á fyrra ári.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir RARIK í árslok 68.3 milljörðum króna og hækkuðu um 2.3 milljarða á milli ára. Heildarskuldir námu 24.4 milljörðum og lækkuðu um 441 milljón króna frá fyrra ári. Eigið fé var tæpir 44 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfall því 64,3% samanborið við 62.4% í árslok 2018.

„Þrátt fyrir óveður og tjón í upphafi árs eru horfur í rekstri RARIK á árinu 2020 góðar. Gert er ráð fyrir að hagnaður ársins af reglulegri starfsemi samstæðunnar verði sambærilegur og á árinu 2019 en að fjárfestingar aukist á milli ára,“ segir í ársreikningi.