Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lágt fasteignaverð hamlar uppbyggingu

26.09.2017 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Dæmi eru um að atvinnurekendur á landsbyggðinni missi starfsfólk vegna skorts á íbúðarhúsnæði. Lágt markaðsverð kemur í veg fyrir nýbyggingar. Formaður Byggðastofnunar vill auka samstarf við Íbúðalánasjóð til að bregðast við ástandinu. 

Á fundi Íbúðalánasjóðs á Akureyri í dag var rætt um slæmt ástand í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Þótt íbúum hafi fjölgað verulega í hinum dreifðu byggðum þá hefur nýtt húsnæði ekki fylgt. Flestar nýbyggingar eru á höfuðborgarsvæðinu og hefur hlutdeild landsbyggðarinnar í nýju húsnæði dregist verulega saman eftir hrun. 

Ekki til húsnæði fyrir starfsfólk

„Það eru aukin atvinnutækifæri, ferðaþjónusta hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og ekki síst úti á landsbyggðinni en á sama tíma sjá atvinnurekendur fram á að missa starfsfólk vegna þess að það er ekki til húsnæði og virðist ekkert vera í uppbyggingu,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs. 

Í mörgum þéttbýliskjörnum er það ekki hækkun fasteignaverðs sem veldur vandræðum, heldur er markaðsverð oft og tíðum lægra en byggingarkostnaður og því er lítill hvati til að byggja nýjar íbúðir.  

Vilji til að búa, ekki kaupa

Formaður Byggðastofnunar telur að vilji til að kaupa húsnæði á fámennum stöðum sé ekki nægur, þrátt fyrir áhuga á að búa þar, sem haldi verðinu niðri „Fólk hefur ekki alveg nægilega örugga trú á framtíðinni á mörgum þessum stöðum að það hafi fullvissu fyrir því að atvinnuástandið haldi,“ segir Illugi Gunnarsson. 

Byggðastofnun og Íbúðalánasjóður vinni saman

Á fundinum var nokkuð rætt um inngrip ríkisins til lausnar á vandanum, til dæmis með hækkun stofnstyrkja á landsbyggðinni. „Mér líst ekkert endilega illa á þá hugmynd, ég held að grunnurinn að því að við getum tekið slíkar ákvarðanir sé fyrst og fremst að vinna greiningarvinnuna á bak við. Við getum ekki byggt slíkar ákvarðanir á tilfinningu,“ segir Sigrún Ásta. 

Illugi telur að varast beri sértækar aðgerðir. „Hins vegar held ég að það mætti alveg horfa til þess að auka samstarfið milli Byggðastofnunar annars vegar og Íbúðalánasjóðs hins vegar þannig að við getum saman reynt að hafa jákvæð áhrif hvað þetta varðar,“ segir hann.