Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Lágkúra“ að Sigmundur tali ekki sjálfur

18.03.2016 - 18:16
Mynd með færslu
Forsætisráðherra í þingsal í dag, þar sem hann mælti fyrir frumvarpi um menningarminjar. Mynd: RÚV
Ítrekað hefur verið kallað eftir svörum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag um félag eiginkonu hans á Bresku-Jómfrúreyjum.

Þingmenn stjórnarandstöðu segjast eiga rétt á svörunum þar sem ljóst sé að ráðherrann hafi leynt upplýsingum um fjármálin. Sigmundur Davíð hefur verið í þinghúsinu í dag, þar sem hann mælti fyrir frumvarpi um menningarminjar.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir forsætisráðherra þurfa að taka þátt í því að efla traust eftir hrun.

„Umræðuefnið sem að hér er og hans upplýsingar um hans fjármál eiginkonu hans og heimilis eru ekki til þess fallin að auka hér traust í samfélaginu. Hann þarf að koma hingað og fara yfir þessi mál með okkur og svara spurningum áður en að Alþingi fer í tveggja vikna hlé.“

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks, segist vart hafa séð meiri lágkúru.

„Undanfarna daga hafa nokkrir þingmenn reynt að gera eignir maka forsætisráðherra tortryggilegar í þeirri von að grafa undan trausti á pólitískum mótherja. Lágkúran gæti vart verið meiri. Ýjað er að því að það sé ólöglegt að eiga eignir erlendis. Það er bara alveg löglegt.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, var á öðru máli um hvar lágkúran lægi.

„Og mér finnst það frekar lágkúrulegt af hæstvirtum forsætisráðherra að láta samþingmenn sína koma hér honum til varnar en hafa ekki kjark til að koma hingað sjálfur.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV