Fyrsta breiðskífa Unnsteins sem sóló-listamanns er væntanleg í haust en fyrsta lagið sem hann tekur í Stúdíó 12 er óútgefið. Lagið samdi hann með Auðunni Lútherssyni. „Við vorum í stúdíóinu langt fram á nótt að gera Snapchat-grín með Óla vini okkar. Svo kom þetta lag út úr öllu gríninu, alveg undir lokin.“ Unnsteinn segist hugsa lögin á plötunni sem sönglög. Lögin myndu því virka þó hann kæmi fram bara einn með píanóleikara, en á plötunni séu þau dansskotnari og með latneskum töktum.
En hvaðan koma suðrænu áhrifin? „Þegar poppmúsíkin verður til, þegar svört og hvít músík blandast saman í Ameríku gerist það á sama tíma í Suður-Ameríku. En þeir hafa einhvern veginn haldið flóknu ryþmunum sem maður heyrir svo mikið í öllu rappi núna. Það sem er að gerast í spænskumælandi tónlist í dag er alveg klikkað, en það kemst kannski ekki yfir hafið, nema til Spánar.“
Gott að brjóta upp formið í popptónlist
Áður en breiðskífan kemur í haust segist Unnsteinn þurfa að koma frá sér tónlist sem er meira rappskotin en sú sem verður á plötunni. „Hún er meira Jazz 2k19,“ segir Unnsteinn léttur í bragði.
Hann segist hafa unnið mikið af lögum sem verða á plötunni með áðurnefndum Auði, sem býr til popptónlist undir listamannsnafninu Auður. Þeir deila saman hljóðveri auk þess sem báðir hugsa mikið um popptónlist á teórískan hátt. Þá segir Unnsteinn að honum hugnist vel að vinna tónlist í samstarfi við aðra listamenn. „Um daginn var Birnir að semja textann og Auðunn að semja laglínurnar, svo var stelpa sem heitir Eva 808 að gera bítið. Ég var svona að púsla öllu saman,“ segir Unnsteinn. „Poppmúsík er svo stíft form og það er gaman að brjóta það upp og við getum það alveg á Íslandi. Ef ég væri taktsmiður í Ameríku þyrfti ég bara að semja næsta hittara til að hafa í mig og á, en hér er þetta ekkert stress, þannig það er miklu auðveldara að skapa.“