Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lagaumbætur og feðraveldispopp

Mynd: Abaad/Facebook / Abaad/Facebook

Lagaumbætur og feðraveldispopp

05.09.2017 - 18:49

Höfundar

Jórdanía, Túnis og Líbanon afnámu í sumar lög sem gerðu nauðgurum kleift að sleppa við refsingu með því að giftast brotaþola. Kvenréttindakonur fagna en á sama tíma njóta nýútgefnir feðraveldispoppslagarar vinsælda. Það er eitt að setja ný lög, annað að breyta rótgróinni menningu.

Í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins frá í fyrra kemur fram að konur standi hvergi jafnhöllum fæti og í Arabaheiminum. Í sumar hafa þó verið stigin skref í rétta átt. 

Félagasamtökin Abaad í Líbanon berjast fyrir auknum réttindum kvenna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Meðlimir samtakanna fögnuðu þann 16. ágúst síðastliðinn þegar stjórnvöld afnámu grein 522 í líbönskum hegningarlögum, grein sem gerði körlum sem nauðga kleift að sleppa við refsingu ef þeir giftast brotaþola og hjónabandið varir í minnst þrjú ár.

Margar konur fallnar í valinn

Breytingarnar koma of seint. Lögin hafa þegar fellt margar konur og stúlkur. Sumar hafa stytt sér aldur. Aðrar verið myrtar. Basma Mohamad Latifa var nauðgað árið 2014 í þorpi í suðurhluta Líbanon, gerandinn var á fimmtugsaldri, hún rétt rúmlega tvítug, sýrlenskur flóttamaður. Fjölskyldunni, sem vildi lítil láta á sér bera, var ráðlagt að kæra ekki heldur semja við nauðgarann um að hann giftist Latifa. Í þrjú ár beitti hann hana grófu ofbeldi, að þeim liðnum, var hann laus allra mála og hún skildi við hann. Hann sætti sig ekki við skilnaðinn, hafði upp á henni og skaut hana til bana, níu skotum. Bróðir hennar segist óviss um hvort lagabreytingin hefði einhverju breytt, hefði hún verið komin. Staða fjölskyldunnar í Líbanon sé bág og áhrif hennar lítil. 

Sigrar, örskref og bakslög

Jórdanía og Túnis stigu þetta skref í júlí. Í Jórdaníu var ákvæði sem heimilar vægari refsingar fyrir heiðursmorð en önnur morð einnig afnumið. Það var of seint fyrir 36 jórdanskar konur sem myrtar voru í fyrra í þeim tilgangi að vernda heiður fjölskyldunnar. Egypsk stjórnvöld afnámu lögin árið 1999 og í  Marokkó var lögunum breytt árið 2014.

Þingið í Barein vildi í fyrra afnema slík lög en framkvæmdavaldið var andsnúið því, úr varð að tekin var ákvörðun um að lögin ættu ekki við eftir hópnauðgun, einungis ef gerandinn var einn að verki. Stjórnvöld í Tyrklandi hafa líka verið á þessari bylgjulengd. Þau lögði í fyrrahaust til að 3000 karlmenn sem kærðir höfðu verið fyrir nauðgun giftust brotaþolum og yrðu þar með hreinsaðir af öllum sakargiftum. Þetta mætti svo mikilli andstöðu meðal almennings að stjórnvöld hurfu frá áformum sínum. 

Kvenréttindasamtök í Miðausturlöndum hafa mótmælt nauðgaraákvæðinu, meðal annars með gjörningum. Í apríl hengdu meðlimir Abaad-samtakanna blóðuga, tætta brúðarkjóla upp við strandgötu í Beirút. Sérfræðingar segja aukinn þrýsting um afnám laganna haldast í hendur við hærra menntunarstig kvenna á svæðinu og tilkomu nýrrar gerðar aktívisma sem samfélagsmiðlar hafi gert mögulega.

Notuð vara

Enn eru lög sem fría nauðgara ábyrgð í gildi í Alsír, Írak, Kúveit, Barein, Líbíu, Sýrlandi og Palestínu. Þau eru ekki bundin við ríki þar sem múslimar eru í meirihluta. Slík lög eru líka í gildi í nokkrum Suður-Ameríkuríkjum og á Filippseyjum svo dæmi séu nefnd. Úrúgvæ afnam þau árið 2006, Eþíópía árið 2005, Rúmenía árið 2000 og Ítalía árið 1981. 

„Ef konu hefur verið nauðgað er hún notuð vara, engin vill hana. Lögin gera henni í það minnsta kleift að eignast eiginmann," sagði Perúskur leigubílstjóri við fréttamann New york times árið 1997. Löggjöfin var þá þannig að hópnauðgun var ekki refsiverð ef einn af nauðgurunum giftist brotaþola. Lögunum var breytt árið 1998 og það kostaði talsverða baráttu. 

Beatriz Merino Lucero, þáverandi formaður nefndar um kvenréttindi, sagði ljóst að þingmenn sem settu sig upp á móti lagabreytingu skildu ekki hvað fælist í nauðgun, nauðgun er ofbeldi af grófustu sort, ofbeldi sem markar konur fyrir lífstíð, rænir hana þeirri tilfinningu að hún sé örugg og veikir stöðu henna, hvernig getum við dregið þá ályktun að konan og maðurinn sem braut gegn henni geti hafið saman nýtt líf? Spurði Merino. 

Djúpar rætur sem teygja sig til Frakklands

Hugsunin á bak við lagaákvæðið á sér djúpar rætur í feðraveldinu, það snýst um að vernda heiður fjölskyldunnar og konunnar sjálfrar. Heiður fjölskyldu er nátengdur meintum hreinleika kvennanna sem tilheyra henni.  Bróðir eins fórnarlambs lýsir þessu svona í viðtali við New York Times: Ef konu er nauðgað er það hneyksli en ef nauðgarinn giftist henni er heiðri bæði hennar og fjölskyldunnar borgið. Skömm kvennanna er mikil og þær hafa oft efasemdir um að kærur þeirra verði teknar alvarlega. Það ýtir líka undir það að málin séu þögguð, samið um hjónaband. 

Rothna Begum, pistlahöfundur Al-jazeera, segir að lögin séu leifar frá nýlendutímum og megi rekja til Frakklands. Í lagabálki frá árinu 1810 sé að finna ákvæði um að karlmaður sem rænir stúlku geti forðast refsingu með því að giftast henni. Svipað ákvæði hafi svo verið að finna Ottoman-lagabálkinum frá árinu 1911. Fyrrum frönsk nýlenduríki á borð við Túnis og Alsír horfðu mörg til franskrar löggjafar eftir að þau fengu sjálfstæði og fóru að semja eigin lög. Ríki sem voru undir breskri stjórn, svo sem Egyptaland og Jórdanía, tóku ákvæðið úr Ottoman-lagabálkinum.

Lögunum ætlað að vernda konur

Begum segir að viðhorf feðraveldisins hafi stutt við þessi lög. Víða hafi verið litið svo á að ekki væri hægt að giftast konum sem hafði verið nauðgað. Þingmenn hafi jafnvel ályktað sem svo að lögin vernduðu konur og stúlkur, kæmu í veg fyrir heiðursmorð, að fjölskyldumeðlimir myrtu þær fyrir að hafa verið þvingaðar til samræðis utan hjónabands. Konur og stúlkur voru þvingaðar í hjónabönd og í ríkjum þar sem giftingaraldurinn var 18 ár gerði nauðgaraákvæðið mönnum kleift að giftast börnum. 

Andstæðingar þess að nauðgurum sé kleift að sleppa við refsingu með því að giftast brotaþola segja lögin senda þau skilaboð að menn geti nauðgað konum án þess að óttast refsingu og gera stöðu konunnar verri en ella, hún sé dæmd til samvista við ofbeldismanninn. Þeir horfa til sjálfsákvörðunarréttar og frelsis, réttar kvenna til að vera hamingjusamar á eigin forsendum. 

Lögin breyta litlu ein og sér

Ljóst er að lögin ein og sér breyta litlu, segir Begum, stórnvöld þurfa líka að reyna að stuðla að viðhorfsbreytingu, uppræta skömmina sem viðheldur þeim sið að knýja konur til að giftast manninum sem nauðgaði þeim. Virðing fyrir frelsi kvenna og ákvörðunarrétti verði að koma í stað hefðbundinna hugmynda um að heiður karlanna í fjölskyldunni hafi eitthvað að gera með hegðun eða meydóm kvenna og stúlkna. Þá verði yfirvöld að tryggja konum sem eiga á hættu að vera beittar ofbeldi eða myrtar af fjölskyldumeðlimum vernd og aðstoð.

Feðraveldispopp nýtur enn vinsælda í Miðausturlöndum þó ekki þyki öllum það áheyrilegt. „Þegar karlinn talar á konan að hlýða, hún á að virða hans gildi ef hún vill að hann verði um kyrrt. Svona er textinn í laginu Al Ragel eða Karlinum með egypska söngvaranum Ramy Sabry sem kom út í sumar. Yfir þrjár milljónir hafa hlustað á það á Youtube. Shereen El Feki, breskur rithöfundur og fræðimaður, hefur rannsakað áhrif samfélagsbreytinga og stjórnmála á náin sambönd í Arabaríkjunum. Hún bendir á að eitt sé að samþykkja lagabreytingu, annað að tryggja að hún sé virt. Dómararnir og lögreglumennirnir sem eiga að framfylgja lögunum séu margir afturhaldssamir. Víða sé heiðri fjölskyldunnar gert hærra undir höfði en rétti einstaklingsins og hjónabandið talið hornsteinn samfélagsins, leiðin inn í heim hinna fullorðnu og eini vettvangurinn fyrir kynlíf. 

Konur ekki síður íhaldsamar

El Feki hefur síðastliðin tvö ár rannsakað viðhorf fólks í Arabaríkjum til kynjajafnréttis og þá sérstaklega hvaða augum karlar líta aukin réttindi og breytt hlutverk kvenna. Viðtöl við yfir 10 þúsund manns á aldrinum 18 til 59 ára í Egyptalandi, Marokkó, Líbanon og Palestínu leiddu í ljóst að þrír fimmtu hlutar karla telja að konur ættu umbera heimilisofbeldi í því skyni að standa vörð um fjölskylduna. Um 60% karla töldu að heiðursmorð ættu að varða við lög en yfir 70% þeirra töldu það hlutverk sitt að vernda kvenkyns ættingja og sögðu það hvernig konur í fjölskyldunni klæddu sig eða höguðu sér hafa bein áhrif á heiður karlanna. Þessi viðhorf eru hindranirnar sem standa í vegi fyrir  frekari umbótum. Viðhorf margra kvenna eru ekki síður íhaldsöm. Helmingur kvenna í Egyptalandi, Marokkó og Palestínu telur að sé konum nauðgað sé réttast að þær giftist nauðgara sínum. 

„Kona sem verndar leyndarmál heimilisins er fullkomin“

El Feki segir að margra kynslóða barátta sýni að það sem þarf til þess að lagaumbætur verði varanlegar sé annars vegar pólitískur vilji, hins vegar almenn menntun. Undanfarið hafi mikið verið einblínt á að mennta konur og stúlkur en ljóst sé að það þurfi að vinna mun meira með drengjum og körlum til að hjálpa þeim að átta sig á því að það felast tækifæri í kvenréttindum, ekki ógn. Ungir menn í Egyptalandi, Marokkó og Palestínu séu íhaldsamari þegar kemur að kvenréttindum en kynslóðirnar á undan þeim, ungar konur séu aftur á móti jákvæðari gagnvart þeim en mæður þeirra og ömmur. Í laginu Al Ragel er að finna varnaðarorð fyrir þessar ungu konur. Konan sem heldur heimili og varðveitir leyndarmál þess, hún er fullkomnunin sjálf en kona sem veldur vandræðum, hún uppsker aðeins höfnun.