Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Lagarfljót: Rannsóknar krafist

07.09.2011 - 22:12
Umhverfisráðuneytið taldi fyrir tíu árum að Kárahnjúkavirkjun myndi ekki hafa áhrif á lífríki Lagarfljóts. Annað hefur nú komið á daginn. Formaður Landverndar telur að rannsaka þurfi hvernig ráðuneytið komst að þessari niðurstöðu.

Í umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar og umsögn Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun kom fram að með tilkomu virkjunarinnar myndu lífskilyrði fiska í Lagarfljóti versna. Það hefur komið á daginn eins og fréttastofa greindi frá í vikunni. Í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá árinu 2001 er því hins vegar haldið fram að áhrif virkjunarinnar verði lítil á lífríki Lagarfljóts.

Guðmundur Hörður Guðmundsson,  formaður Landverndar,  telur að ráðuneytið þurfi að útskýra þá niðurstöðu.

 „Ég veit til dæmis að það var ekki leitað eftir upplýsingum hjá Náttúrufræðistofnun á þessu tímabili. Þetta er einmitt það sem ráðuneytið þarf að útskýra, hvaða forsendur það hafði til að komast að þessari niðurstöðu,“

Guðmundur Hörður segir það vekja athygli að niðurstaða ráðuneytisins hafi komið eftir aðeins þriggja mánaða vinnu þar.

 „ Og ef að ráðuneytið getur ekki gefið fullnægjandi skýringar á þessari niðurstöðu sem það komst að fyrir tíu árum síðan þá tel ég fulla ástæðu til að fara í allsherjar rannsókn á hvernig þessi úrskurður var unninn á sínum tíma,“ segir Guðmundur.