Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lærdómur hrunsins hafi gleymst í átökum

30.09.2018 - 15:41
Mynd: Silfrið / RÚV
Icesave-málið og Landsdómsmálið stóðu því fyrir þrifum að íslensk stjórnvöld drægju nægilegan lærdóm af efnahagshruninu. Þetta segir Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor, sem fór fyrir teyminu sem ritaði siðfræðihluta rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út 2010. Deilurnar um þessi tvö mál kæfðu að sumu leyti umræðuna um hvað mætti læra af hruninu. Hann segir að stjórnmálamenn hafi í fyrstu lýst miklum vilja til umbóta, sem síðan gleymdust í átökunum um Landsdómsmálið og Icesave. 

Rætt var við Vilhjálm í Silfrinu í dag.  

Umbætur gleymdust í átökum

Vilhjálmur segir að í Icesave málinu hafi verið tvenns konar skilningur á því hvað hefði gerst. „Önnur er tiltölulega einföld. Þarna voru einkabankar sem fóru á hausinn. Höfðu stofnað reikninga í útibúum erlendis og síðan ákveða stjórnvöld að ábyrgjast ekki þær innstæður. Tryggingasjóður á ekki fyrir þeim og auðvitað á almenningur ekki að borga skuldir óreiðumanna í einkabönkum. Síðan eru stjórnvöld undir þrýstingi, reyna að semja en forsetinn leiðir okkur til sigurs gegnum EFTA-dómtólinn. Þetta er einfalda frásögnin, myndi ég segja.“

Síðan sé líka til flóknari frásögn af Icesave sem hann telur að margir myndu frekar vilja hallast að en hefur átt undir högg að sækja, meðal annars vegna þess að málið vannst fyrir EFTA-dómstólnum. „Það var það að þarna voru einkabankar sem þó lutu eftirliti íslenskra eftirlitsstofnana.“

Fjármálaeftirlitið hafi haldið uppi vörnum þegar hollenskir eftirlitsaðilar gerðu athugasemd við stofnun Icesave í Hollandi.

„Seðlabankastjóri sagði í samtali við breskan fjölmiðil að ríkissjóður stæði sterkt að baki þessum bönkum og gæti vel tekið áfallið ef svo illa færi að þess þyrfti og ef ríkið kysi það. Stjórnmálamenn fóru í samkrulli við fjármálamenn á fundi erlendis og hnýttu þannig bankana æ meira saman við íslenska ríkið.“

Tók „gríðarlega áhættu“ fyrir hönd þjóðarinnar

Vilhjálmur segir að þegar forsetinn vísaði Icesave í annað sinn til þjóðarinnar hafi það verið slæmt upp á lærdóma. „Vegna þess að ein rökin fyrir synjunarvaldi forseta er að veita þinginu aðhald þannig að það vandi sig við frumvörp og samninga og þeir virkilega vönduðu sig á milli. Og það var mjög unnið vel að samningnum sem kenndur er við Buchheit. En það breytti engu. Þannig að í rauninni ákvað forsetinn samt sem áður að synja og taka gríðarlega áhættu fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þetta hefði getað farið miklu verr og það var ákveðinn lagatæknilegur sigur sem vannst.“ 

Vilhjálmur segir þetta hafa leitt til þess að Íslendingar horfðu minna í eigin barm. Frekar sé bent á að erlendir menn beri ábyrgðina. „En ég held samt sem áður að Icesave hafi, og ég tek eftir því þegar ég ræði við hagfræðinga, að það er búið að gera gríðarlega margt í fjármálageiranum og þar held ég að hafi verið heilmikill lærdómur sem er kannski ekki mikið verið að ræða í fjölmiðlum. Styrkja eftirlitsstofnanir, allskonar vinnubrögð, hvernig stjórnendur eru valdir inn í fjármálafyrirtæki og  að grípa til ráðstafana sem eiga  að koma í veg fyrir að annað Icesave eða annar svona gríðarlegur vöxtur banka geti gerst.“

Vilhjálmur segir að það hafi aðallega verið tveir stjórnmálamenn sem hafi lagt áherslu á að hrunið væri á ábyrgð útlendinga; Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þáverandi formaður Framsóknarflokksins, tók ekki þátt í gerð samningsins. „Það var athyglisvert hvernig Bjarni Benediktsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn í þeim samningi og Kristján vann sem formaður fjárlaganefndar gott starf. Í skoðanakönnunum voru 70 prósent þjóðarinnar fylgjandi því að halda þennan samning.“

Vilhjálmur segir að pólitísk saga eftirhrunsáranna hefði orðið allt önnur hefði samningurinn verið gerður. „Umræðan verður þessi: við unnum málið og það sýndi að þeir sem voru á móti því að gera samninginn höfðu rétt fyrir sér, en þetta er mjög einföld túlkun.“ 

Ríkisstjórninni sem hafi tekið við eftir hrun hafi færst of mikið í fang. „Setti kannski of margt á dagskrá. Það er eitt og sér stórt mál að takast á við afleiðingar efnahagshrunsins. Síðan er það ESB, stjórnarskrármálið, Landsdómsmálið allt í farvatninu á sama tíma.“ 

Sáttaleið mögulega uppbyggilegri leið 

Vilhjálmur erfitt að segja hvort það hafi verið rétt eða rangt að draga bankamenn fyrir dóm eins og gert var hér. Hann veltir fyrir sér hvort það hefði verið uppbyggilegra að fara aðrar leiðir, til dæmis sáttaleið eins og í Suður-Afríku eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok. „Bæði til að stuðla að betrun og því að þeir ættu samtal við okkur um það sem hefði gerst, og kannski reynt að bæta fyrir brot sín með öðrum hætti. Varið þeim fjármunum sem þeir fóru með í vörn sína til uppbyggilegra málefna.“

Vilhjálmur segir erfitt að fara gegn stemningunni í íslensku samfélagi og að tala fyrir slíku fyrir átta árum hefði verið mjög erfitt. 

 

Mynd: RÚV / RÚV
Hér má horfa á allan þáttinn.
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV