Lærdómsríkasta ferli sem ég hef upplifað

Mynd: Gunnar Hansson / Gunnar Hansson

Lærdómsríkasta ferli sem ég hef upplifað

03.06.2019 - 16:22

Höfundar

Kári Viðarson og Gréta Kristín Ómarsdóttir hafa unnið nýtt leikverk í samstarfi við Kvennaathvarfið, þar sem sem fjallað um ofbeldi innan náinna sambanda, sem á að varpa ljósi á ýmsar hliðar samfélagsins og samskipti fólks. Þau hafa eytt undanförnu ári í rannsóknarvinnu og Kári segir að þetta hafi verið lærdómsríkasta ferli sem hann hefur tekið þátt í.

„Þetta er samstarf sem er komið til að frumkvæði Kvennaathvarfsins,“ segir Kári um leiksýninguna Ókunnugur. Aðstandendur Kvennaathvarfsins voru að leita að einhverjum til að vinna verk til að stuðla að samtali við unga karlmenn um ofbeldi í samböndum. „Þetta var of spennandi og of mikilvægt til að taka það ekki að mér,“ segir Kári.

Tók fjölda viðtala

Hófst þá rannsóknarferlið þar sem Kári tók fjölda viðtala við þolendur, gerendur, sálfræðinga og lögfræðinga sem þekkja til svona ofbeldismála. „Og úr er orðin þessi sýning,“ segir Kári.

Kári segir að þetta sé eitt það lærdómsríkasta sem hann hefur þátt í. „Það er öllum hollt að kynna sér þessi mál. Ég held að það sé mjög ríkjandi, hjá karlmönnum sérstaklega, að hugsa með sér: „Ég er ekki svona, þetta er ekki mitt. Þetta kemur mér því ekki við.“ Og ég held að það sé mjög hættulegt,“ segir Kári. Hann segir að ofbeldi í nánum samböndum geti verið fjölbreytt og lúmskt. Hann segir að hann hafi hugsað fyrir fram að hann þekkti ekki mikið til þessara mála í sínu nærumhverfi, en svo þegar hann hafi farið að kynna sér þetta betur hafi hann áttað sig á því að þetta sé mun algengara en hann hafi talið.

Hefði viljað sjá svona sýningu þegar hann var ungur

Kári hvetur ungt fólk og sérstaklega unga karlmenn til að sjá þessa sýningu, hann segist hefðu viljað sjá sýningu af þessu tagi þegar hann var ungur karlmaður, því hún varpi ljósi á útbreitt og víðtækt vandamál sem sé allt í kringum okkur. 

Fyrstu þrjár sýningarnar fara fram í Frystiklefanum í Rifi, 8. 10. og 12. júní, en Kári stofnaði Frystiklefann og hefur rekið hann í níu ár. Reksturinn hefur vaxið og dafnað á þessum tíma, þar er í dag veitingastaður, farfuglaheimili, tónleikastaður, leikhús og þar getur listafólk sótt um að fá aðsetur til að vinna að sínum verkum.

Viðtalið við Kára Viðarsson sem var í Mannlega þættinum í dag má hlusta á í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.