Lærði listir á götunni

17.01.2016 - 20:20
Mynd: Rætur / RÚV
Lee Nelson, sirkusstjóri Sirkuss Íslands, ætlaði aldrei að setjast að á Íslandi. Hann ætlaði bara rétt að koma hér við á ferðalagi sínu um heiminn. En svo varð hann bara óvart ástfanginn af íslenskri konu. Reyndar á skemmtistaðnum Sirkus. Lee segir að sirkuslistaferillinn hafi byrjað þegar hann var unglingur í Ástralíu og bjó á götunni.

Þá sá hann mikið af götulistamönnum og hafði gaman af því að fylgjast með þeim. Þeir fóru svo smám saman að kenna honum brögð og brellur sem hann fann að hann réði sjálfur við. Hann segist ekki hafa haft mikla trú á sjálfum sér á þessum tíma en þegar hann fann að hann réði við verkefnin fékk hann aukið sjálfstraust og eitthvað til þess að stefna að. 

Það var síðan miklu seinna og hálfpartinn fyrir tilviljun að Sirkus Íslands varð til. Hann áttaði sig á því að hann þyrfti að skapa sér atvinnu á Íslandi ef hann ætlaði að setjast hér að - og það eina sem hann kunni voru sirkuslistir. En hér var bara enginn sirkus. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og í dag vinnur stór hópur fólks við sirkusinn allan ársins hring. Þar með talið Lee og konan hans, Alda Brynja Birgisdóttir.

Lee lítur á Ísland sem heimili sitt enda sé hér allt sem skipti hann mestu máli, bæði fjölskylda og vinir. Hann segist hafa farið víða en hvergi hafi hann fundið fyrir jafn mikilli samkennd og nánd í samfélaginu, sem skipti hann miklu máli. Hér þekki fólk hvert annað og láti sig hvert annað varða.

Ég hef búið hér í áratug og allan þann tíma hef ég haft sama símanúmer. Ég hef getað eignast vini en ekki bara kunninga. Ég hef orðið ástfanginn, í stað þess að skemmta mér bara í smá tíma og stinga svo af. Og þetta finnst mér óskaplega mikils virði. 

 

Lee var á meðal viðmælenda í þættinum Rótum, sem sýndur var á RÚV í kvöld. Þar er fjallað um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. Í þættinum var líka fjallað um skemmtilega siði og venjur, bæði af íslenskum og erlendum uppruna. Svo var farið í saumaklúbb erlendra kvenna, sem hefur í gegnum árin gegnt lykilhlutverki í lífi þeirra, og gægst ofan í pottana hjá úganskri ömmu sem elskar snjóinn á Íslandi. 

 

sigridurh's picture
Sigríður Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi