Lækkun skatta ekki skilað sér til neytenda

27.01.2016 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Síðustu ár hefur verð á matvöru verið 20-27% hærra á Íslandi en meðalverð í Evrópusambandinu. Í skýrslu Bændasamtakanna um matvöruverð á Íslandi segir að hagstæð gengisþróun hafi ekki skilað sér til neytenda. Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst frá ársbyrjun 2011 til 2014 hafi það ekki birst í smásöluverði og vísbendingar séu um að álagning birgja og dagvöruverslana hafi hækkað.

Matvöruverð er svipað hér og á Norðurlöndunum samkvæmt skýrslunni. Ísland er í fimmta til sjöunda sæti yfir þau lönd þar sem matvöruverð er hæst. Verðlagseftirlit ASÍ komst að þeirri niðurstöðu að við breytingu á vörugjöldum og virðisaukaskatti um áramótin 2014-2015 hafi verð á raftækjum og byggingarvörum ekki lækkað í samræmi við lækkun gjaldanna og hið sama á við um afnám svokallaðs sykurskatts. 

Árið 2014 margfaldaðist innflutningur á nautakjöti. Heimsmarkaðsverð lækkaði, magntollar lækkuðu um tvo þriðju en engu að síður hækkaði verð á nautahakki til íslenskra neytenda um 15%.  

Í skýrslunni segir að það sé mögulegt að lækka matvöruverð. Á matvörumarkaði þurfi allir að fá sinn hlut af kökunni en eins og staðan sé núna taki verslunin of stóran hluta til sín á kostnað neytenda og bæta. Nefndar eru ýmsar úrbætur til að ná þessu fram. Tryggja aukna samkeppni, Samkeppniseftirlitið þarf að beita úrræðum í auknum mæli, tryggja þarf að lækkun gjalda skili sér til neytenda og hagræðing í íslenskum landbúnaði verði að skili sér til neytenda og bænda ekki bara til fyrirtækja í verslunarrekstri. 

Í skýrslunni er vitnað til skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá því í fyrra þar sem fram kemur að arðsemi dagvöruverslana hér á landi sé mikil samanborið við önnur lönd. Meðalarðsemi skráða dagvörusmásala erlendis er um 13% í Evrópu og um 11% í Bandaríkjunum samanborið við 35-40% hér.