Lækka sorphirðugjöldin með moltugerð

07.12.2015 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd: ?? - wikipedia.org
Íbúar á Fljótsdalshéraði sem stunda moltugerð heima við lækka sorphirðugjöld sín, segir moltugerðarmaður á Egilsstöðum. Lífrænt heimilissorp sem til fellur í sveitarfélaginu mun verða keyrt til til vinnslu hjá Moltu á Akureyri í framtíðinni. Hækkuð útgjöld í sorphirðu hjá sveitarfélaginu verða tæpar tvær milljónir á ári vegna þessa. Áætlað er að um 100 kíló af sorpi séu urðuð á hverju ári fyrir hvern íbúa á Fljótsdalshéraði. Fjórðungur fer í endurvinnslu en 30% eru lífrænt sorp.

Verðmæti þeirra efna sem falla til við heimilishald lækka sorphirðugjöld íbúanna, segir Freyr Ævarsson verkefnastjóri umhverfismála hjá Fljótsdalshéraði. Tæplega 4,7 milljóna króna mánaðarlegur kostnaður er af sorphirðu í sveitarfélaginu sem telur tæplega 3500 manns. Fljótsdalshérað hefur rekið þriggja tunnu flokkunarkerfi í samstarfi við Íslenska Gámafélagið síðan árið 2009. Íbúar sveitarfélagsins hafa staðið sig mjög vel í flokkun allt frá því að það var tekið upp og eru hlutfall endurvinnanlegs sorps um fjórðungur, lífræns tæp 30%, en um  45% af heildarsorpinu sem til fellur er urðað. Gróflega má áætla að um 100 kg. af sorpi séu urðuð á ári fyrir hvern íbúa í sveitarfélaginu.

Við Frey var rætt í þættinum Sögur af Landi á laugardag en einnig við þau Philip Vogler og Helgu Hreinsdóttur, íbúa á Fljótsdalshéraði.  Þau stunda moltugerð heima við og lækka sorphirðugjöld sín enn frekar í ljósi þess að þau nýta aðeins tvær tunnur af þeim þremur sem sveitarfélagið býður uppá. „Það er mikil unun að því að sjá ormana sprikla í gróandi mold,“ sagði Philip Vogler moltugerðarmaður sem jafnframt lýsti moltugerðarkúnstinni og þeim hvötum sem leiddu hann á brautir moltugerðarinnar í þættinum.

 Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sinna eftirliti með moltuframleiðslu sveitarfélaga og undirverktaka þeirra sem safna lífrænu sorpi. Tilraunir sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs hafa ekki enn skilað þeim árangri að tekist hafi að framleiða nýtanlega moltu úr lífrænum hluta heimilisúrgangsins sem fellur til. Áætlað er að rúm tíu tonn af lífrænum úrgangi falli til mánaðarlega. Helga Hreinsdóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands segir að ná þurfi upp nægjanlegum hita í efninu til þess að það brotni niður svo að tryggt sé að smithætta sé ekki af þeirri hrá-moltu sem til verður í ferlinu.

 Nokkur munur er á því ferli sem einstaklingar geta fylgst með við niðurbrotsferli heimagerðrar moltu og það stórtæka ferli sem moltugerð sveitarfélaga felur í sér. Ærinn tilkostnaður standi stundum í sveitarfélögum að koma upp nægilega góðri aðstöðu til moltugerðar. Freyr Ævarsson segir að ljóst sé í bili að „gámaaðferðin“ til moltugerðar ráði ekki við það magn sem falli til hjá sveitarfélaginu.    Fljótsdalshérað hefur tekið þá ákvörðun að senda lífræna hluta sorpsins, moltugerðarefnið, til Moltu á Akureyri og verður kostnaðarauki sorphirðunnar um 3% á ársgrundvelli, eða tæpar 2 milljónir.  

 Molta á Akureyri sinnir moltugerð fyrir sveitarfélögin í Skagafirði og Eyjafirði og er afkastageta stöðvarinnar um 10.000 tonn af ári. Í fyrra nýtti fyrirtækið tæp 6000 tonn af lífrænu heimilissorpi og íblöndunarefnum eins og timbri og pappír, í moltugerð.

 Að sögn Viðars Eiríkssonar móttökustjóra Íslenska Gámafélagsins á Egilsstöðum er það helst ábótavant á Fljótsdalshéraði að fyrirtæki sjái sér hagnað í að skila lífrænum úrgangi, en hótel, gistiheimili og verslanir láti mikið magn af lífrænu sorpi fara með almenna sorpinu til urðunar. Hann segir komandi kynslóðir vera mjög móttækilegar fyrir boðskapnum um flokkun og nýtingu sorps og að með þeim batni ástandið. Fólk fái samviskubit yfir því að láta allt fara í sömu tunnuna þegar það hafi vanist við að flokka um árabil. 

arnaldurmf's picture
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi